Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, náði frábærum árangri á Missouri’s Johnie Imes háskólamótinu í Bandaríkjunum í gær.
Ragnhildur vippaði ofaní á lokaholunni fyrir sigrinum á mótinu og um leið bætti hún skólamet hjá Eastern Kentucky liðinu á 54 holu höggleiksmóti. Ragnhildur gerði sér lítið fyrir og lék 54 holur á 12 höggum undir pari og hún lék síðustu 9 holur mótsins á 6 höggum undir pari vallar.
Eins og áður segir sigraði Ragnhildur á mótinu en hún sigraði með minnsta mun þar sem að Sarah Bell úr Oral Roberts skólanum var á 11 höggum undir pari samtals. Bell lék lokahringinn á 65 höggum eða -7.
Ragnhildur lék hringina þrjá á 12 höggum undir pari eða 204 höggum sem er fimm höggum betra en skólamet Eastern Kentucky sem hún deild sjálf með Elsu Moberly (209 högg). Moberly setti það met tímabilið 2017-2018 og Ragnhildur jafnaði það á síðasta tímabili (2020-2021).
„Á svona degi þá kann maður að meta alla þá miklu vinnu sem ég hef lagt í að ná slíkum árangri. Það er enn skemmtilegra að upplifa slíkan árangur með sigri ásamt liðsfélögum mínum og þjálfurunum. Það er ekkert sem jafnast á við slíkar stundir,“ segir Ragnhildur m.a í viðtali á heimasíðu skólans,
Ragnhildur lék fyrsta hringinn á 4 höggum undir pari eða 66 höggum. Á öðrum keppnisdegi lék hún á 70 höggum eða -2 og var í efsta sæti fyrir lokahringinn. Hún lék frábært golf á lokahringnum eða 66 höggum sem er næst besti hringur hjá liðsmanni Eastern Kentucky kvennaliðsins í golfi frá upphafi.
Mandy Moore þjálfari Eastern Kentucky segir að árangur Ragnhildar sé sá besti sem hún hafi upplifað sem þjálfari. „Það er ánægjulegt að sjá hana uppskera eftir alla þá miklu vinnu sem hún hefur lagt á sig til að bæta leik sinn.