Golfklúbburinn Hella og Rangárþing ytra hafa undirritað samning til eflingar golfínu í héraði og til að auðvelda yngri sem eldri íbúum sveitarfélagsins þátttöku í þessari heilsueflandi íþrótt sem golfið er.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfklúbbnum Hellu.
Með samningnum eru félaginu tryggðir fjármunir til starfseminnar sem nema 2.800.000 kr á tímabilinu.
Vel flestir golf spilarar þekkja völlinn á Strönd enda er hann einn sá glæsilegast á öllu landinu. Á Strönd er frábær aðstaða til golfiðkunar þar sem jafnframt fer fram öflugt æskuðlýðs- og ungmennastarf.
Samningurinn mun efla samstarf Rangárþings ytra og Golfklúbbsins Hellu. Með samningnum er fyrst og fremst verið að tryggja öflugt starf barna- og unglinga sem og að eldri borgarar geti spilað endurgjaldslaust á vellinum á föstum æfingatímum.
Opinn dagur verður haldinn árlega þar sem öllum íbúum Rangárþings ytra býðst að koma á Strönd, kynna sér aðstæður og spila hring á vellinum.
Rétt er að koma því á framfæri að allir mega alltaf koma og spila endurgjaldslaust á pútt æfingavelli og 6 holu æfingavelli við vallarhúsið, einnig mega allir koma og slá bolta á drive æfingabraut. Hægt er að fá golfbolta á Strönd sem og að leigja kylfur, golfsett og golfbíl fyrir þá sem það kjósa.
Á Strönd er einnig frábær veitingastaður „Strönd Restaurant“.
Hvetjum alla til þess að koma á Strönd í sumar og spila golf!