Site icon Golfsamband Íslands

Rúmlega 20 keppendur á Íslandsmótinu 2024 léku á Íslandsmótinu árið 2011

Guðrún Brá Björgvinsdóttir á Íslandsmótinu 2018. Mynd/seth@golf.is

Íslandsmótið í golfi 2024 fer fram á Hólmsvelli í Leiru dagana 18.-21. júlí.

Íslandsmótið í golfi á sér langa sögu á Hólmsvelli í Leiru og er þetta í 21. sinn sem keppt er um Íslandsmeistaratitla hjá Golfklúbbi Suðurnesja, en klúbburinn fagnar 60 ára afmæli á þessu ári.

Árið 2011 fór Íslandsmótið síðast á Hólmsvelli í Leiru, þar sem að Axel Bóasson, GK, og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum.

Á Íslandsmótinu 2024 eru 21 leikmaður sem léku einnig á mótinu árið 2011, fimm konur og sextán karlar.

Einar Long, GR, var 53 ára þegar mótið fór fram árið 2011 en hann er næst elsti keppendi mótsins í ár, 66 ára.

Sigurbjörn Þorgeirsson, GFB, var 40 ára árið 2011 en hann hefur verið í fremstu röð í keppnisgolfi eldri kylfinga undanfarin ár.

Helgi Birkir Þórisson og Guðmundur Rúnar Hallgrímsson voru báðir 36 ára þegar mótið fór fram árið 2011 en þeir ólust upp á Hólmsvelli í Leiru – og er Guðmundur Rúnar enn félagi í GS.

Hlynur Geir Hjartarson, GOS, barðist um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra á Urriðavelli allt þar til á lokaholunni. Hann var 35 ára þegar mótið fór fram árið 2011. Hann er 48 ára í dag og verða dætur hans á meðal keppenda í mótinu, Heiðrún Anna Hlynsdóttir og Katrín Embla Hlynsdóttir.

Alfreð Brynjar Kristinsson var 26 ára þegar mótið fór fram árið 2011 en þar sigraði systir hans, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir í fyrsta sinn á Íslandsmótinu í golfi.

Kristján Þór Einarsson, GM, var 23 ára á mótinu 2011 en hann er tvöfaldur Íslandsmeistari í golfi.

Ragnar Már Garðarsson, GKG, var 16 ára árið 2011 en þar var móðir hans, Ragnheiður Sigurðardóttir, GKG, á meðal keppenda. Ragnheiður, sem er næst elsti keppandinn í kvennaflokki, 57 ára, er með báða syni sína í keppendahópnum í ár, en Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, tekur þátt.

Þórdís Geirsdóttir, GK, var 46 ára árið 2011 þegar mótið fór fram á Hólmsvelli í Leiru, en hún er elsti keppandinn í kvennaflokknum í ár, 59 ára.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, var 17 ára þegar mótið fór fram árið 2011 en hún er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi. Karen Guðnadóttir, GS og Berglind Björnsdóttir, GR voru 19 ára árið 2011 og mæta til leiks í ár.

Aðrir kylfingar sem tóku þátt árið 2011 og eru með í ár eru: (aldur þeirra árið 2011 er í sviga).

Bjarni Sigþór Sigurðsson, GK (30), Björgvin Sigmundsson, GS (26), Arnar Snær Hákonarson, GR (23), Arnór Ingi Finnbjörnsson, GR (22), Örvar Samúelsson, GA (20), Andri Már Óskarsson, GOS (20), Andri Þór Björnsson, GR (20), Rúnar Arnórsson, GK (19).

Exit mobile version