Rúnar Arnórsson, GK, og Böðvar Bragi Pálsson, GR, hafa báðir tryggt sér sæti á lokaúrtökumótinu fyrir Nordic Tour atvinnumótaröðina.
Rúnar endaði í 4. sæti á úrtökumóti sem fram fór í Svíþjóð og Böðvar Bragi endaði í 19. sæti á úrtökumóti i Danmörku um s.l. helgi en 22 efstu komust áfram.
Í Svíþjóð var leikið á 4 keppnisvöllum og komust um 10 efstu af hverjum velli áfram á lokaúrtökumótið.
Lokaúrtökumótið fer fram í Svíþjóð dagana 13.-14. október 2021.
Á lokaúrtökumótinu keppa alls 78 kylfingar (42 frá úrtökumótunum í Svíþjóð, 22 frá danska úrtökumótinu, 7 frá finnska úrtökumótinu og 7 frá norska úrtökumótinu).
Á lokaúrtökumótinu fá 25 efstu keppnisrétt á Nordic Tour mótaröðinni í styrkleikaflokki 7, þeir sem enda í sætum 26.-50. fá keppnisrétt í styrkleikaflokki 9 og þeir sem eru í sætum 51 og neðar fá keppnisrétt í styrkleikaflokki 12.
Rúnar lék á 3 höggum undir pari vallar eða 141 högg (69-72) og Böðvar Bragi lék á 1 höggi yfir pari vallar eða 145 höggum.
Nordic Tour atvinnumótaröðin hefur á undanförnum árum gefið íslenskum atvinnukylfingum tækifæri til þess að komast inn á Áskorenda – og Evrópumótaröðina. Með góðum árangri á Nordic Tour mótaröðinni geta keppendur tryggt sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni / Challenge Tour.
Axel Bóassson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús hafa allir fetað þá leið inn á Áskorendamótaröðina.



