Fjölmargir íslenskir kylfingar hafa á undanförnum árum fetað þá leið að samtvinna nám í bandarískum háskóla samhliða því að æfa – og keppa við frábærar aðstæður í Bandaríkjunum.
Íslenska fyrirtækið Soccer/Sports og Education USA hefur verið í stóru hlutverki að aðstoða íþróttafólk að fá íþróttastyrki í háskólum í Bandaríkjunum.
Brynjar Benediktsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að frá árinu 2015 hafi SEUSA aðstoðað um 450 efnilegt íþróttafólk frá Íslandi – en fyrirtækið leitar nú að kraftmiklum einstaklingi til þess þess að sjá um golfíþróttina hjá SEUSA.
„Þessi leikmenn hafa samtals fengið um 5 milljarða ísl. kr. í styrki og fengið tækifæri til þess að efla sig sem einstaklingar í námi og íþróttum. Frá því að við byrjuðum að aðstoða efnilega kylfinga hér landi árið 2016 höfum við fundið fyrir vaxandi áhuga,“ segir Brynjar en fyrirtækið er þessa dagana að leita eftir öflugum aðila hér á landi til þess að leiða golfverkefnið hjá SEUSA.
„Við erum að leita eftir einstaklingi sem er með brennandi áhuga á golfi í skemmtilegt verkefni. Á skrifstofunni hjá okkur starfar skemmtilegur og öflugur hópur sem er að aðstoða efnilegt íþróttafólk í ýmsum íþróttagreinum á borð við fótbolta, körfubolta, frjálsíþróttum, sundi og auðvitað golfi. Okkur vantar aðila til þess að sjá um tenginguna við efnilega kylfinga hér á landi og skólana í Bandaríkjunum.“ segir Brynjar við golf.is en nánari upplýsingar er að finna í skjalinu hér fyrir neðan.