Nú hafa um 4.000 kylfingar slegið í gegn í Regluverði,spurningaleik Golfsambandsins og Varðar í sumar. Enn er möguleiki að vera með í þessum skemmtilega leik og slá þátttökumetið frá því í fyrra, þegar yfir 4.000 tóku þátt. Dregið verður úr þátttakendum þann 15. september. Sigurvegarinn fær í vinning golfferð fyrir tvo með Heimsferðum á Montecastillo golfsvæðið á Spáni.
Þátttakendur í leiknum geta nýtt þekkingu sína á golfreglunum og unnið brons-, silfur- eða gullverðlaun. Af þeim 4.000 sem hafa tekið þátt hafa um 1.500 nælt sér í gullverðlaun, sem gefa bestar líkur á því að vera dreginn út.
Þeir sem ekki hafa kynnt sér margslungnar reglur golfsins ættu að eignast eintak af Golfreglubókinni, sem er kjörið að hafa með í golfpokanum. Það er öllum kylfingum hollt að kunna reglurnar, enda verður leikurinn skemmtilegri og gengur hraðar fyrir sig þegar reglurnar eru á hreinu.