/

Deildu:

Auglýsing

Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi, SÍGÍ, standa fyrir veglegri ráðstefnu samhliða aðalfundi sínum nk. föstudag og laugardag, þar sem góður og valinkunnur hópur innlendra og erlendra fyrirlesara kemur saman og miðlar þekkingu sinni og reynslu til allra þeirra sem áhuga hafa á að bæta við sig þekkingu í umsjón golf- og knattspyrnuvalla. Ráðstefnan er öllum opin og er aðgangur gjaldfrjáls.

Efst á baugi er kynning Stewarts Brown á námi í íþróttavallafræðum við Myerscough College í Englandi, en Brown er reyndur kennari við skólann, sem býður m.a. upp á B.Sc. nám í uppbyggingu og meðhöndlun íþróttavalla, e. Sports Turf Science & Management. „Okkur finnst mikilvægt að bjóða upp á þessa kynningu til að hvetja þá sem áhuga kunna að hafa á að mennta sig í greininni. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að eignast fleira menntað fólk á þessu sviði,“ segir Bjarni Hannesson, formaður SÍGÍ.

Fleiri erlendir fyrirlesarar eru á mælendaskrá. Má til dæmis nefna Alan Ferguson, en hann er vallarstjóri á St. George‘s Park, æfingasvæði enska knattspyrnusambandsins. Ferguson starfar einnig fyrir evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, við úttektir á knattspyrnuvöllum um alla álfuna og er hátt skrifaður meðal knattspyrnuvallastjóra.
Dr. William Kreuser er aðstoðarprófessor við Nebraska-háskóla í Lincoln. Hann hefur einkum lagt áherslu á aukna nákvæmni í umhirðu grasvalla, t.d. að koma í veg fyrir óþarfa áburðargjöf. Kreuser hefur gefið út fjölda fræðirita um þetta sem og önnur tengd viðfangsefni.

Dagskrá ráðstefnunnar hefst kl. 13 með vélasýningu á 1. hæð stúkubyggingar við Laugardalsvöll. Aðalfundur SÍGÍ fer fram í Vörninni, fundarsal KSÍ á 3. hæð og hefst kl. 15:30. Að honum loknum, eða kl. 17, hefst fyrri hluti ráðstefnunnar. Hún hefst síðan að nýju af fullum þunga kl. 9 á laugardagsmorgun og stendur yfir allan daginn. Ráðstefnunni lýkur formlega með kvöldverði í klúbbhúsi Golfklúbbs Reykjavíkur í Grafarholti, þar sem úrslit kjörs á vallarstjórum ársins verða kunngjörð. Kvöldverðurinn hefst kl. 19.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ