Site icon Golfsamband Íslands

SÍGÍ þýðir stefnumótun FEGGA um ábyrga umsjón golfvalla

Fyrr á þessu ári staðfesti FEGGA, Samband landssamtaka golfvallastarfsfólks í Evrópu, viljayfirlýsingu um ábyrga umsjón golfvalla með aðkomu allra 24 aðildarfélaga sinna. Þar á meðal er SÍGÍ, Samtök íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi, sem nú hafa riðið á vaðið og þýtt yfirlýsinguna, fyrst allra aðildarfélaga FEGGA.

Yfirlýsingin er eins konar stefnumótun með áherslu á framfarir í starfi, sjálfbæra starfshætti, fræðslu og rannsóknir á því sviði, upplýsingagjöf, útbreiðslu og gegnsæi.

„Íslenskir golfvellir og fólkið sem annast þá stendur mjög vel að vígi. Við notum víða heppilegar grasategundir, beitum næringargjöf og vökvun í hófi og erum þekkt fyrir það. Við verðum samt að halda áfram að bæta okkur og vinna markvisst. Það á ekki bara við um starf okkar á völlunum, heldur líka í útbreiðslu. Við viljum upplýsa kylfinga og fólk utan greinarinnar um þá vinnu sem fram fer á golfvöllum. Þýðing þessarar tímamótayfirlýsingar er fyrsta skrefið,“ segir Steindór Ragnarsson, formaður SÍGÍ.

Í stefnumótuninni er m.a. hvatt til þess að umsjónarmenn golfvalla noti skráningarkerfi GEO Foundation, OnCourse, til að halda utan um viðhaldsverk og miðla upplýsingum út í samfélagið. Til þessa hefur kerfið mest verið notað sem umsóknarviðmót fyrir sjálfbærnivottunar- og handleiðslukerfi GEO, sem þrír íslenskir golfklúbbar hafa lokið með vottun, Nesklúbburinn, Keilir í Hafnarfirði og nú síðast Golfklúbburinn Oddur í Garðabæ.

Yfirlýsing FEGGA og aðildarfélaga þess var gerð er Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Keilis, var formaður FEGGA, en hann gegndi því embætti á árunum 2013-2017. Edwin Roald, golfvallaarkitekt og ráðgjafi, þýddi skjalið. Hann annaðist einnig útlitshönnun og umbrot upphaflegu yfirlýsingarinnar fyrir FEGGA, en þar má m.a. finna táknræna mynd frá Nesvelli á Seltjarnarnesi þar sem rík áhersla er lögð á fuglalíf.

„Þó margir félaga okkar hafi lært í Bretlandi og aðrir í hreyfingunni hafi fyrir löngu vanist því að sækja sér fróðleik og viða að sér upplýsingum á ensku, þá finnum við vel fyrir því hve mikið áhuginn eykst þegar efni eins og þetta verður fáanlegt á íslensku,“ segir Steindór.

Lesa íslenska útgáfu yfirlýsingar FEGGA um ábyrga umsjón golfvalla.

Exit mobile version