/

Deildu:

Auglýsing
Engar breytingar á stjórn GA – umtalsverð lækkun á félagagjöldum 20-26 ára – Víðir, Stefán og Kristján fengu afreksmerki GA

Sigmundur Einar Ófeigsson var endurkjörinn sem formaður Golfklúbbs Akureyrar á aðalfundi GA sem fram fór fimmtudaginn 10. desember s.l. Stjórn klúbbsins mun halda áfram óbreytt næsta árið. Rekstur GA gekk vel og gerð var umtalsverð breyting á félagagjöldum í aldurshópnum 20-26 ára.

Sjá frétt sem er á vef GA og hér fyrir neðan:

Í gær var haldinn aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar,  á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf, Tryggvi Þór Gunnarsson var valinn sem  fundarstjóri og stýrði hann fundinum af miklum myndarbrag. Sigmundur Einar Ófeigsson, formaður Golfklúbbs Akureyrar, las skýrslu stjórnar og fór yfir atburði líðandi árs. Guðlaug M. Óskarsdóttir, gjaldkeri  klúbbsins, fór yfir ársreikninginn fyrir  2015 og var hann samþykktur.

Tillögur stjórnar GA um árgjöld voru samþykkt og hér má sjá árgjöld næsta árs.  Líkt og aðrir golfklúbbar hafa gert undanfarið höfum við breytt uppsetningu á árgjöldum í GA til höfða betur til yngri kynslóðarinnar og sporna við brottfalli kylfinga á aldrinum 20 – 26 ára.  Því var samþykkt að lækka árgjaldið fyrir þann hóp.  Hafa ber í huga að hjá GA þá borga okkar krakkar/unglingar eingöngu árgjaldið sitt.  Á það leggst ekki æfingagjald líkt og tíðkast í mörgum öðrum klúbbum af þessari stærðargráðu.

Rekstur GA gekk vel á nýliðnu ári.  Það sem þó helst vantaði upp á voru tekjur af árgjöldum en þær tekjur lækkuðu á milli ára.  Mótahald tókst virkilega vel í sumar sem og rekstur golfbúðarinnar og fór það svo að tekjur jukust um rétt um 11,5 milljónir á milli ára. Það var þó einnig þannig að gjöld jukust líka á milli ára eða um 10 milljónir króna.

1449834354_sveitakeppni1

Ebidta klúbbsins er rétt um 12 milljónir króna á móti 9,5 milljónum í fyrra.  Skuldastaða klúbbsins er fín þó svo að skuldirnar hafi aukist á milli ára.  Það er þó aðallega tilkomið vegna framkvæmda við byggingu Klappa sem eru núna í fullum gangi og á GA eftir að fá þá fjárhæð endurgreidda í apríl á næsta ári.

Við fjárfestum í vor í fjórum nýjum tækjum á golfvöllinn.  Það var komin talsverð þörf á því að bæta við tækjum og því voru þau keypt í vor og hafa reynst virkilega vel í sumar.  Einnig var gengið frá kaupunum á Trackman og er hann nú allur í okkar eigu.

Einnig voru veitt nokkur verðlaun á fundinum.

Þeir Víðir Steinar Tómasson, Stefán Einar Sigmundsson og Kristján Benedikt Sveinsson fengu afhent afreksmerki GA þar sem þeir unnu sína fyrsta Íslandsmeistaratitla.

Stefán Einar varð holumeistari GA 2015 og fékk hann einnig háttvísibikarinn.

Stefán er öflugur og flottur kylfingur og var m.a. hluti af íslandsmeistaraliði okkar í sveitakeppni pilta 18 ára og yngri.  Stefán starfaði hjá Golfklúbbnum í sumar við golfskólann og stóð sig virkilega vel í kennslunni. Stefán er vel liðinn af öllum krökkunum sem hann þjálfar og er þeim góð fyrirmynd.

Stefán endurspeglar vel þá eiginleika sem Golfklúbbur Akureyrar vill sjá í sínum afreksunglingum. Sá sem hlýtur þennan bikar þarf að vera duglegur, samviskusamur, hafa góðan íþróttaanda og vera bæði sér og klúbbnum sínum ávallt til sóma og umframt allt góð fyrirmynd.

Það var svo Kristján Benedikt Sveinsson sem var valinn kylfingur ársins.

Kristján hefur staðið sig virkilega vel á nýliðnu ári og náð frábærum árangri  á golfvellinum.

Þar ber helst að nefna:

–          Akureyrarmeistari ( yngsti Akureyrarmeistari frá upphafi)

–          Íslandsmeistari í holukeppni

–          Íslandsmeistari í sveitakeppni pilta 18 ára og yngri

–          2 sæti í íslandsmótinu í höggleik

–          2 sæti á stigalista GSÍ á Íslandsbankamótaröðinni

Einnig er Kristján í afrekshóp GSÍ og hefur verið valinn til keppni á mótum erlendis fyrir Íslands hönd en hann fór m.a. í sumar á European young masters í Sviss og stóð sig virkilega vel.

Kristján lækkað forgjöf sína talsvert í sumar og er nú kominn í 1,3, átti hann m.a. allnokkra hringi undir pari í sumar og á þannig hringjum væntanlega eftir að fjölga talsvert á næstu árum.

Óskum við Kristjáni og Stefáni kærlega til hamingju með nafnbótina og eru þeir vel að þeim komnir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ