Landsmótinu í golfhermum 2023 lauk sunnudaginn 2. apríl þegar úrslitin réðust í Íþróttamiðstöð GKG. Þetta er í annað sinn sem Landsmótið í golfhermum fer fram en GKG var framkvæmdaraðili mótsins í samstarfi við GSÍ.
Saga Traustadóttir, GKG, sigraði í kvennaflokki og varði titil sinn frá því í fyrra. Sigurður Arnar Garðarsson, GKG, sigraði í karlaflokki en þetta er í fyrsta sinn sem hann fagnar þessum titli.
Keppnin var jöfn og spennandi í kvennaflokki þar sem að Saga sigraði með tvegga högg mun en hún lék hringina tvo í Grafarholti á 7 höggum undir pari samtals eða 135 höggum. Atvinnukylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, og Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, komu þar á eftir á -5 og -4.
Sigurður Arnar hafði töluverða yfirburði í karlaflokki en hann lék hringina tvo á Grafarholtsvelli á 19 höggum undir pari vallar eðan 123 höggum. Hann lék fyrri hringinn á 61 höggi eða 10 höggum undir pari vallar og á 62 höggum eða 9 höggum undir pari á síðari hringnum. Fimm kylfingar úr GKG röðuðu sér í efstu sætin í úrslitunum. Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, varð í öðru sæti á -13 samtals en hann sigraði á þessu móti í fyrra þegar það fór fram í fyrsta sinn. Aron Snær Júlíusson, GKG, varð þriðji á -6 samtals og Sveinn Ögmundsson varð fjórði – en hannn er einnig úr GKG og er faðir Gunnlaugs Árna
Landsmótið hófst um miðjan janúar og fóru tvær undankeppnir fram. Keppendur tóku ekki með sér árangur úr undankeppninni inn í úrslitin. Alls léku 8 keppendur í hvorum flokki til úrslita.
Leiknar voru 36 holur í úrslitunum eða tveir 18 holu hringir. Leikið var á Grafarholtsvelli en í fyrra, þegar mótið fór fram í fyrsta sinn, var leikið á Leirdalsvelli.
Veitt voru verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í hvorum flokki auk þess sem sigurvegarar fengu farandbikar.
- sæti: 100.000 kr.
- sæti: 50.000 kr.
- sæti: 30.000 kr.
Vallarstillingar úrslitakeppninnar var þannig að nokkur vindur var og brautir mjúkar, þannig að aðstæður voru öllu erfiðari en í undankeppnunum. Líkt og áður þá púttuðu leikmenn þegar boltinn var meira en 2.4 metra frá holu.