Gísli Sveinbergsson
Auglýsing

Opna breska áhugamannamótið hófst í dag í Skotlandi en mótið fer fram á tveimur völlum, Carnoustie og Panmure Angus. Þetta er í 120. sinn sem þetta sögufræga mót fer fram. Fyrstu tveir keppnisdagarnir eru höggleikur þar sem keppendur spila um að komast í sjálfa holukeppnina. Alls eru sjö íslenskir kylfingar á meðal keppenda en keppendurnir eru alls 288 frá 30 mismunandi þjóðlöndum. Tekið er mið af stöðu kylfinga á heimslista áhugamanna á þessu móti og aðeins þeir stigahæstu á þeim lista komast inn.

Andri Þór Björnsson úr GR og Gísli Sveinbergsson úr GK léku vel í dag eða á 68 höggum eða -2. Þeir eru jafnir í 14. sæti en alls komast 64 efstu eftir 36 holur í holukeppnina. Andri lék á Carnoustie vellinum í dag (68 högg) en Gísli á 70 höggum á  Panmure Angus. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, lék á 71 höggi eða -1 á Panmure Angus. Aron Júlíusson, GKG, lék á 72 á Carnoustie en hann er í 104. sæti á +2. Haraldur Franklín Magnús, GR, lék á 76 höggum eða +6 á Carnoustie og er í 229. sæti. Rúnar Arnórsson, GK, lék á 77 höggum eða +7 á Carnoustie. Ragnar Már Garðarsson, GKG, lék á 85 höggum eða +13 á  Panmure Angus og er hann í 285. sæti.

Það er að miklu að keppa á þessu móti þar sem að sigurvegarinn fær keppnisrétt á sjálfu Opna breska meistaramótinu sem fram fer á St. Andrews í Skotlandi í júlí. Að auki fær sigurvegarinn keppnisrétt á Opna bandaríska meistaramótinu sem fram fer á Oakmont Country vellinum á næsta ári, og sjálfu Mastersmótinu á Augusta á næsta ári.  

Fyrir ári síðan komst Haraldur Franklín í 8 manna úrslit á þessu móti – sem er besti árangur hjá íslenskum kylfingi á þessu sögufræga móti.

Staðan:

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ