Edwin Roald, golfvallahönnuður, skrifaði áhugaverða grein á vefsíðu félags golfvalla arkitekta í Evrópu, EIGCA, sem birtist í fyrsta fréttabréfi ársins 2016.
Þar bendir Edwin Roald, á sjö kosti golfleiksins fyrir heilsuna. Greinin er í heild sinni hér fyrir neðan.
Eins og allir kylfingar vita, þá reynir golf bæði á huga og líkama. Vera kann að golf sé ekki almennt talið mjög krefjandi líkamlega, en það felur eigi að síður í sér útivist og röska göngu, þar sem hraðinn er um 6-7 km á klst, í nokkrar klukkustundir í senn þar sem hugurinn verður fyrir stöðugri örvun svo takast megi á við hinar margvíslegu áskoranir sem við mætum á vellinum. Nokkuð hefur verið rætt og ritað um heilsufarslegan ávinning af golfiðkun án þess að á hann hafi verið lögð mikil áhersla. Því er vert að spyrja: Hversu hollt er golf í raun fyrir líkama og sál?
Hjartaheill – Hreyfing kemur blóðinu af stað. Það að ganga og sveifla kylfunni ásamt því að bera golfpokann eða draga kerruna eykur hjartsláttartíðni og blóðflæði. Líkur á kvillum á borð við heilablóðfall og sykursýki dragast saman auk þess sem til margs er að vinna með því að lækka blóðþrýsting og skaðlegt kólesteról, sérstaklega ef mataræði er hollt og lífsstíll heilbrigður. Samkvæmt norska golfsambandinu, þá er hjartsláttartíðni kylfings við golfiðkun að jafnaði um 100 slög á mínútu í tvær til fimm klukkustundir í senn.
Örvar heilann – reglubundin, dagleg ganga vinnur gegn minnistapi. Clive Ballard, sem stýrir rannsóknum hjá Alzheimer‘s Society, segir: „Hvort sem um er að ræða skokk eða göngu á golfvellinum, þá er hreyfing fyrirtaks leið til að halda hjarta og heila heilbrigðum. Með reglubundinni hreyfingu tryggir þú gott blóðflæði til heilans, sem er nauðsynlegt svo hann starfi betur til lengri og skemri tíma.“
Aukakílóin burt – Oft er talað um að leiðin til að léttast sé að taka tíu þúsund skref á dag. Til samanburðar, þá er því marki auðveldlega náð á átján holum, þ.e. ef þú leikur golf á tveimur jafnfljótum fremur en að nota golfbíl. Norska golfsambandið hefur tekið saman nýlegar rannsóknaniðurstöður frá Japan, Þýskalandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð auk innlendra aðila, en þær sýna að karlkyns kylfingur brennir um 2.500 kaloríum á átján holum. Konur brenna um 1.500 kaloríum (sjá 9 hull til bedre helse).
Minnkar streitu – Ánægjan sem við fáum af því að ganga utandyra, í fersku lofti og góðum félagsskap ásamt því að leysa krefjandi þrautir framkallar endorfín, sem stuðlar að bættri andlegri líðan, gerir okkur glaðlyndari og hjálpar okkur að slaka á.
Betri svefn – Hreyfing og ferskt loft stuðla að bættum svefni. Regluleg hreyfing getur hjálpað þér að sofna fyrr og ná lengri tíma í djúpum svefni. Svefn liðkar fyrir endurheimt í vöðvum eftir áreynslu og meiðsli.
Lág slysatíðni – Golf er örugg íþrótt eða tómstundaiðja í þeim skilningi að kylfingur gengur á mjúku og hæfilega öldóttu undirlagi. Margir þeirra sem e.t.v. eru komnir af léttasta skeiði kjósa því að leggja stund á golf, m.a. til að brenna hitaeiningum án mikillar hættu á meiðslum.
Lengir lífið – Oft er talað um að hláturinn lengi lífið. Hið sama má segja um golf, ef marka má afar áhugaverða rannsókn sem stýrt var af Anders Ahlbom, prófessor hjá hinni virtu Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Þar kom í ljós að dánartíðni meðal sænskra kylfinga var 40% lægri en meðal Svía almennt. Þetta segja vísindamennirnir að megi umreikna yfir í fimm ára viðbótarlíftíma (sjá Golf: A game of life and death – reduced mortality in Swedish golf players)
Heilsuávinningurinn sem njóta má af golfiðkun er mun meiri en við flest gerum okkur grein fyrir. Golfiðkun hefur mun meiri og víðtækari áhrif á líðan okkar en við höfum til þessa gert okkur í hugarlund. Með tilliti til þess hve misjafnlega hver golfvöllur höfðar til fólks á öllum aldri, þá er golf ákaflega góð leið til að hvetja fólk til heilsubótar og gera því kleift að hreyfa sig.
Í júlí 2015 birtist grein í New York Times þar sem fjallað var um niðurstöður tveggja rannsókna sem heimfæra má auðveldlega yfir á golfiðkun. Þar kom fram að „ganga í almenningsgarði rói hugann og breyti um leið starfsemi heilans í átt til bættrar andlegrar heilsu“ (sjá þessa blogfærslu).
Golfbílar eru ekki sjálfsagðir
Notkun golfbíla er útbreidd og það getur því verið mjög auðvelt að stökkva um borð í einn slíkan, fremur en að ganga. Þótt golfbílar gegni vissulega ákveðnu hlutverki, m.a. til að gera golf aðgengilegt eldra fólki og öðrum sem glíma við fötlun eða veikindi, þá hefur þessi útbreidda notkun líklega átt stóran þátt í að draga upp þá skökku mynd, sem margir virðast ennþá sjá, að golf sé einhvers konar yfirstéttaríþrótt.
Kylfingar ættu því að reyna eftir fremsta megni að segja nei við golfbílnum og leika golf á tveimur jafnfljótum, eins og það er og hefur alltaf verið stundað í sinni hreinustu mynd, og njóta þannig hins margþætta heilsufarslega ávinnings sem hér hefur verið nefndur.
Hvaða hlutverki gegna hönnuðir í þágu lýðheilsu?
Við sem hönnum golfvelli þurfum að halda vöku okkar og leita allra leiða til að draga úr þörf á golfbílum. Skylda okkar er að gera kylfingum eins auðvelt og kostur er að ganga vellina, því umrædd heilsufarsleg áhrif eru og verða líklega meðal þýðingarmestu eiginleika golfleiksins á komandi áratugum. Aukin áhersla á auðgengna velli er þannig mikilvæg til að tryggja að golfíþróttin hafi áfram þýðingarmiklu hlutverki að gegna í samfélaginu og geti um leið horft björtum augum til framtíðar.