/

Deildu:

Ruth Einarsdóttir. Mynd/GR
Auglýsing

„Foreldrar mínir hvöttu mig til þess að byrja í golfi um mitt sumar 2012. Þar sem ég hef verið mikið í íþróttum og náð ágætistökum á flestu sem ég hef tekið mér fyrir hendur þá taldi ég að ég myndi rúlla þessu upp,“ segir GR-ingurinn Ruth Einarsdóttir við tímaritið Golfi.is/Golf á Íslandi sem birtist í 1. tbl. 2019.

„Ég byrjaði í Keili og hamaðist á Sveinskotsvellinum að ná forgjafartakmarkinu til þess að spila á Hvaleyrarvelli sem var 34,4. Ég náði því í ágúst 2012 en þá var ég með svo mikla millirifjagigt að ég var úr leik það sumar. Við tók sjúkraþjálfun og endurhæfing. Kærastinn minn, Bogi Pétursson, greip síðan í taumana og gaf mér golfnámskeið hjá Ragnhildi Sigurðardóttur í jólagjöf. Eftir það námskeið fékk ég meiri skilning á þessu öllu saman og hreyfingarnar hjá mér í golfsveiflunni urðu „heilbrigðari“.

Ruth stundaði allar íþróttir af krafti á yngri árum og gekk vel í þeim flestum. Hún segir að golfíþróttin sé sú allra erfiðasta sem hún hafi tekist á við.

„Ég ætla alltaf að tækla þetta upp í nára eins og í fótboltanum í gamla daga. Það þarf aga til þess að gera það ekki við þessa litlu kúlu sem þarf að koma áfram. Það þarf ekki alltaf mikla krafta til að slá langt. Verkefnið er enn til staðar og verður áfram, en þetta sjúklega skemmtilegt. Það sem er mest ögrandi er að spila með þeim sem standa manni næst. Ég gleymi því ekki þegar mér gekk herfilega að pútta á Kiðjabergsvellinum. Ég púttaði fram og til baka á flötinni. Bogi minn sagði þá með rólegu preströddinni sinni. „Mundu bara Ruth mín að sópa.“ Ég tók kúluna upp og þrumaði henni í Boga. Golfið er íþrótt auðmýktar,“ segir Ruth í léttum tón.

Eins og sagan hér að ofan gefur til kynna er helsti veikleiki Ruthar óþolinmæði. Hún slær langt sem er hennar styrkleiki í golfinu.

„Það sem er skemmtilegast við golfið er að vinna Boga Pétursson og spila með stelpunum mínum í NalúK. Alicante golf er sá völlur sem er í mestu uppáhaldi og 10. holan á Hvaleyrarvelli er eftirlætisholan. Einfaldlega vegna þess að ég fór holu í höggi á henni. Golfsumarið 2019 verður frábært. Ég ætla að spila mikið golf. Ég er svo heppinn að tilheyra kvennahópi í GR sem heitir nalúK. Þar ríkir mikil keppni ásamt dásamlegri samkennd og samveru. Markmið sumarsins er að ná meiri stöðugleika og vinna hann Boga minn oftar,” segir Ruth að lokum en hún er með 16,2 í forgjöf.


Ruth Einarsdóttir. Mynd/GR

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ