/

Deildu:

Auglýsing

– PGA-kennari ársins 2017 kom til Íslands fyrir tilviljun

„Ég elska íslensku náttúruna og það er fátt betra en að vera úti í kyrrð og ró hér á Íslandi,“ segir Derrick Moore við Golf á Íslandi þegar við hittum hann í glæsilegri æfingaaðstöðu Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar á dögunum. Viðtalið birtist í tímaritinu Golf á Íslandi sem kom út í byrjun maí.

Hinn 47 ára gamli Skoti hefur á undanförnum árum fengið mikið hrós frá félögum sínum í PGA á Íslandi – en Derrick hefur verið kjörinn PGA-kennari ársins undanfarin þrjú ár og fjórum sinnum alls.

Hvernig stóð á því að þú komst til Íslands?

„Ég fékk símtal frá vini mínum Joe McKie árið 1999. Hann var þá búinn að starfa sem golfkennari hjá GR í tvö ár. Ég var á þeim tíma í PGA-náminu og starfaði við kennslu í Skotlandi. Joe spurði mig hvort ég væri til í að koma til Íslands og vinna sem golfkennari. Ég hélt að Joe væri að grínast því ég vissi ekki að það væri spilað golf á Íslandi. Hann seldi mér þetta með því að dásama landið og fólkið sem hér væri. Ég hugsaði mig aðeins um og tók sénsinn á þessu ævintýri.“

Derrick var á þeim tíma að ljúka við PGA-námið í Skotlandi og hann tók lokaárið í fjarnámi á Íslandi og lauk því árið 1999.  

„Ég er 47 ára og Ísland er sá staður sem ég hef búið lengst á. Ég er sonur hermanns og við vorum því mikið á ferðinni þegar ég var barn. Ég bjó á ótal herstöðvum út um allt á Englandi, Skotlandi og í Evrópu. Ég var í átta ár í Þýskalandi án þess að kynnast menningunni þar. Þýski bílstjórinn sem keyrði okkur í skólann var í raun eini heimamaðurinn sem við kynntumst. Umhverfið okkar var alltaf breskt þar sem við vorum.“

Golfíþróttinni kynntist Derrick fyrir tilviljun og hann byrjaði frekar seint að æfa golf sjálfur.

„Ég byrjaði frekar seint í golfi sjálfur. Ég var alltaf í fótbolta og þar ætlaði ég mér stóra hluti . Ég sló golfbolta í fyrsta sinn 15 ára. Það gekk ágætlega og mér fannst magnað að sjá boltann fljúga af stað. Það var eitthvað sem gladdi mig mikið. Sumarið þegar ég var 17 ára meiddist ég í fótboltanum og ég gerði ekkert annað en að spila golf á þeim tíma. Ég fékk lánaðar kylfur hjá frænda mínum og ég varð ástfanginn af golfinu. Í mínum huga var ég búinn að uppgötva stórkostlega íþrótt. Ég fór ekkert aftur í fótboltann og fór þess í stað að æfa golf af krafti. Mér gekk vel að ná tökum á íþróttinni og fór að keppa fljótlega með ágætum árangri.“

Golfkennslan átti vel við mig

„Ég lét mig dreyma um að verða atvinnukylfingur. Sérstaklega þegar ég var kylfusveinn eitt sumar hjá atvinnumanni í klúbbnum okkar. Hann fór með mig út um allt og ég var alveg heillaður af því umhverfi sem atvinnukylfingar voru að vinna í. Ég spilaði víðsvegar sjálfur og gekk svo sem alveg ágætlega. Ég áttaði mig á því að getumunurinn á mér og þeim allra bestu á PGA-mótaröðinni í Skotlandi, þar sem ég lék, var mikill. Þeir bestu voru miklu betri en ég. Það varð til þess að ég fór að einbeita mér að kennslu. Ég fann það strax að mér leið vel í því að kenna öðrum, það gekk vel og mér fannst það gaman. Það gefur mér mikið að sjá fólk bæta sig í golfi. Og hér er ég í dag að gera það sama og fyrir 20 árum og ég elska það.“


„Það var eitthvað við Ísland og fólkið hérna sem gerði það að verkum að mér leið ótrúlega vel á Íslandi frá fyrsta degi sem ég kom til GR. Móttökurnar sem ég fékk voru stórkostlegar. Það voru allir að bjóða mér í mat og heimsóknir. Mér leið eins og ég væri hluti af samfélaginu. Mér fannst líka Íslendingar vera líkir mér og ég hitti marga áhugaverða einstaklinga sem krydduðu starfsumhverfið og gerðu það enn áhugaverðara.“

Trúði varla mínum eigin augum

„Ég trúði varla mínum eigin augum þegar ég keyrði í fyrsta sinn á Korpúlfsstaði. Joe benti á þetta risastóra hús og sagði mér að þetta væri klúbbhúsið. Ég missti hökuna í gólfið – og sagði: „Vá þetta er höll en ekki klúbbhús.“ Ég vissi ekki að GR væri „aðeins“ með hluta af húsinu sem klúbbhús en þetta er skemmtileg minning.“

Eftir þriggja ára veru á Íslandi fór Derrick að skammast sín fyrir hversu illa hann væri að sér í íslenskunni. Hann tók þá ákvörðun að breyta því og fór að læra málið með markvissum hætti.

„Á hverjum degi setti ég mér það markmið að læra þrjú ný orð í íslensku. Það gekk alveg ágætlega en ég hafði enga tilfinningu fyrir málinu. Það breyttist mikið þegar ég kynntist eiginkonu minni. Þegar við fórum að búa saman þá breyttist þetta allt og ég fór að ná betri tökum á málinu. Þetta var erfitt, ég skal alveg viðurkenna það. Mér finnst gaman að tala íslenskuna og ég nota hana mikið erlendis þegar ég er með David Barnwell vini mínum og golfkennara hjá GR. Þá tölum við íslensku og getum sagt hvað sem er án þess að eiga það á hættu að landar okkar frá Englandi skilji okkur,“ segir Derrick í léttum tón.


Auðbjörg Lísa Gústafsdóttir er eiginkona Derricks og saman eiga þau einn son.

„Við kynntumst í gegnum golfið, hún var nemandi hjá mér. Hún á eina dóttur og ég er afar stoltur af litlu fjölskyldunni. Það er ekki mikið um golf hjá okkur þegar við erum saman. Það eru allir með fína sveiflu og getu til að spila, en við höfum fundið aðra hluti til þess að gera saman. Strákurinn er á kafi í handbolta og við styðjum krakkana okkar í því sem þau velja að gera.“

Erfitt að taka við slíku hrósi

Eins og áður segir hefur Derrick verið valinn PGA-kennari ársins þrjú undanfarin ár og fjórum sinnum alls. Hann gerir lítið úr eigin afrekum og vill deila þessari nafnbót með félögum sínum í PGA-samtökunum á Íslandi.

„Mér finnst erfitt að taka við slíku hrósi, það eru leikmennirnir sem ég hef þjálfað sem eiga að fá hrósið, foreldrar þeirra og fjölskyldur og klúbbarnir þeirra. Þetta snýst meira um þá en mig. Ég hef verið heppinn að fá tækifæri að vinna með mörgum af okkar bestu kylfingum. Ég er bara hluti af stóru liði hér á Íslandi sem hefur komið að m.a. uppbyggingu á PGA-skólanum. Ég á því mörgum að þakka að fá slíka viðurkenningu.“

„Mínar kennsluaðferðir eða áherslur eru að ég held ekkert mjög ólíkar því sem flestir nota. Við erum sem betur fer ólík og það er gott að við notum mismunandi kennsluaðferðir. Ef við værum öll eins þá væri þetta ekkert skemmtilegt. Ég hef þróað mínar aðferðir eftir því sem ég hef lært meira og fengið meiri reynslu. Ég hef líka verið heppinn að hitta kylfinga sem líkar vel við hugmyndafræðina sem ég vinn með. Samstarf kennara og kylfinga er flókið og stundum ganga hlutirnir ekki upp – og þannig er það bara.“

Frábært hjá Ólafíu og Valdísi

Derrick er þjálfari Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur en hann þekkir hana vel frá því hún var ungur kylfingur í GR.

„Ég var í þjálfarateyminu hjá GR þegar Ólafía Þórunn kom þar inn sem barn. Ólafía leitaði til mín fyrir úrtökumótið á LET mótaröðina á sínum tíma. Hún var aðeins „áttavillt“ á þeim tíma og vildi fá mína aðstoð. Við náðum að finna flöt á því samstarfi með góðum vilja GKG þar sem ég er starfsmaður. Mitt hlutverk hefur að mestu verið að búa til ramma fyrir hana, gera áætlanir, og við hittumst ekkert mjög oft yfir tímabilið. Ólafía Þórunn er gáfuð og það er skemmtilegt að vera í kringum hana. Hún vill hafa hlutina einfalda og henni hefur tekist að ná betri tökum á því álagi í sem fylgir því að spila á LPGA, mótaröð bestu kylfinga heims.

„Ólafía Þórunn var eins og aðrir atvinnukylfingar oft með samviskubit yfir því að vera of lengi á æfingasvæðinu. Það væri að bitna á hennar nánustu og kærastanum. Og svo þegar hún var ekki á æfingasvæðinu var hún með samviskubit yfir því að vera ekki að æfa sig. Við höfum tekið þessa þætti með skipulögðum hætti. Ólafía á að stimpla sig út úr vinnunni með góðri samvisku og gera aðra hluti. Ef henni tekst að slökkva á golfinu þegar hún á að gera það þá líður henni betur.“

Derrick er sannfærður um að Ólafía Þórunn eigi eftir að ná enn lengra á næstu árum og einnig Valdís Þóra Jónsdóttir.

„Ólafía Þórunn hefur bætt sig mikið og hún á mikið inni. Það sem hún hefur bætt mest er að vera ekki að stressa sig á því ef hún er ekki að leika sitt allra besta golf. Það er partur af atvinnumennskunni að geta skorað án þess að vera með allt 100%. Hún er að læra að beina orkunni í rétta átt, það er endalaust verkefni að bæta sig. Ólafía Þórunn er líka átta sig betur á því að hún eigi heima á meðal þeirra bestu. Valdís Þóra Jónsdóttir er einnig að gera frábæra hluti og við hér á Íslandi eigum að vera stolt af því að eiga svona afrekskonur. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir golfíþróttina að eiga slíka afrekskylfinga. Ég sé glampann í augunum á yngri kylfingunum hér í GKG þegar Ólafía Þórunn mætir á æfingar hérna. Strákarnir okkar eru einnig á réttri leið. Birgir Leifur Hafþórsson hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og Axel Bóasson er einnig í næstefstu deild með Bigga á þessu ári, eitthvað sem við höfum aldrei upplifað áður.“

 


Byggir grunninn í afreksstarfi GKG

Það vekur athygli að PGA-kennari ársins er í þjálfarateyminu sem sér um æfingar yngstu afrekskylfinga GKG.

„Mér finnst gríðarlega gaman að kenna krökkum sem hafa ákveðið að helga sig golfinu. Hér hjá GKG er ég að kenna þessum yngstu, allt saman frábærir krakkar sem eru tilbúnir að læra enn meira. Elstu afrekskylfingarnir eiga að mínu mati að bera meiri ábyrgð á sínum leik og æfingum. Þeir eiga að þekkja sveifluna sína frá A-Ö. Þeir eiga að hafa þekkingu til þess að vinna í sínum hlutum sjálfir með aðstoð og leiðbeiningum frá okkur – en við eigum ekki að standa yfir þeim öllum stundum á æfingasvæðinu. Það er líka mikilvægt að kenna kylfingunum að golfið er lærdómur eins og lífið sjálft. Þetta er stanslaus vinna og það skiptir líka máli að læra að verða betri manneskja, taka ábyrgð og verða með þeim hætti betri golfari.“

Derrick hefur verið golfkennari hjá GKG frá árinu 2006. „Ég hef ekki orku lengur til þess að kenna langt fram eftir kvöldi og einkatímarnir hjá mér eru færri en áður. Ég sakna þess stundum en ég verð að velja og hafna. Ég átti frábæran tíma hjá GR og tíminn hér hjá GKG hefur verið ótrúlega fljótur að líða. Það er í raun smá sjokk að rifja það upp að ég hef verið hérna frá árinu 2006. Hér hjá GKG er frábær golffjölskylda og þá er ég að tala um starfsfólkið og klúbbfélagana. Stemningin hérna hefur lítið breyst eftir að nýja íþróttamiðstöðin var tekin í notkun og mér líður virkilega vel hérna.“

Þegar Derrick er inntur eftir því hvernig framtíð golfsins á Íslandi verði lítur hann út í glæsilega æfingaaðstöðu GKG þar sem fjöldi manns var við æfingar. „Þetta er framtíðin. Hér eru kylfingar á öllum aldri að nýta sér nýjustu tækni til þess að bæta leik sinn við bestu aðstæður innandyra.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ