Golfhátíð á Akranesi fer fram dagana 10.-11. júní 2025. Viðburðurinn er hluti af mótahaldi GSÍ fyrir kylfinga 14 ára og yngri (Golf 14).
Markmiðið er að fá sem flesta kylfinga sem æfa golf á Íslandi á aldrinum 11-14 ára til að taka þátt í Golfhátíðinni. Búast má við kylfingum hvaðanæva af landinu en Golfhátíðin hentar öllum getustigum.
Golfhátíðin verður í anda fótboltamótanna. Kylfingar gista 1-2 nætur í Fjölbrautaskóla Vesturlands. Kylfingar leika ekki hefðbundna 18 holu golfhringi heldur spreyta sig á margvíslegum, skemmtilegum golfþrautum á Garðavelli. Vellinum verður skipt upp í margar stöðvar sem verður krefjandi og skemmtilegt að leysa og ólík áskorun frá fimm tíma golfhring. Þess utan verður skemmtileg dagskrá utan golfvallarins t.d. sund, frisbígolf o.fl.
Þjálfarar og afrekskylfingar golfklúbba halda utan um kylfingana sína en starfsfólk GSÍ ásamt öðrum þjálfurum, atvinnukylfingum og landsliðskylfingum sjá um golfþrautirnar. Margir af þekktustu kylfingum Íslands munu taka þátt í Golfhátíðinni og veita ungu kylfingunum hvatningu og innblástur.
Verð í Golfhátíðina er 19.900 kr. Þátttökugjald verður innheimt eftir að skráningu lýkur. Verði lágmarksfjölda ekki náð þegar skráningarfresti lýkur, fellur viðburðurinn niður.
![FB - Golfhátíð á Akranesi - Golfsamband Íslands](https://www.golf.is/wp-content/uploads/2025/02/FB-Golfhatid-a-Akranesi-1024x1024.jpg)