Golfsamband Íslands

Sló fyrstu höggin á Djúpavogi

11-08-17 NGF 2017, Dutch Amateur Championship, (former Brabants Open Dames & Heren), Eindhovensche Golf, Valkenswaard, Noord-Brabant, Netherland. 11-13 Aug. Asta Birna Magnusdottir of Iceland during the first round.

Ásta Birna Magnúsdóttir leikur í efstu deild í Þýskalandi samhliða vinnu

„Ég er mjög stolt af því að geta sagt að ég komi frá Djúpavogi. Á sínum tíma þegar ég var að byrja í golfi var ekki mikið um að fólk á Djúpavogi væri að spila golf – og ég er því mjög ánægð að hafa fengið tækifæri að prófa golfið á þessum stað á þessum tíma,“ segir Ásta Birna Magnúsdóttir í samtali við Golf á Íslandi.

Ásta Birna var á árum áður einn besti kylfingur Íslands í kvennaflokki en hún hefur ekki sagt skilið við íþróttina og leikur í sterkri deild í Þýskalandi þar sem hún er búsett. „Ég flutti til Þýskalands árið 2009, nánar tiltekið til Lippstadt. Ég hóf nám í sjúkraþjálfun haustið 2009 og lauk því 2013. Síðan ég lauk náminu hef ég starfað sem sjúkraþjálfari á sjúkrahúsinu hér í Lippstadt og ég gef mér enn tíma í keppnisgolfið þegar ég get.“

Ásta Birna vakti mikla athygli á sínum tíma hér á Íslandi fyrir árangur sinn í barna- og unglingaflokkum. Ekki síst fyrir þá staðreynd að hún hóf ferilinn á Djúpavogi þar sem lítið var um kylfinga og áhuginn ekki mikill á íþróttinni. Ásta varð m.a. Íslandsmeistari í holukeppni árið 2008 og sigraði á mótum á Eimskipsmótaröðinni.

Lærði af þeim eldri

„Golfvöllurinn var í botni Hamarsfjarðar eða í 10 km fjarlægð frá bænum. Það var því frekar mikið mál að komast á völlinn. Ég var bara í golfi á sumrin og til að byrja með fór ég með golfsettið á bak við húsið heima. Þar var lítill leikvöllur og ég byrjaði bara á því að slá boltana upp í klettana. Strákarnir sem voru að leika sér þarna fengu áhuga og upp úr því fóru þeir að spila golf,“ segir Ásta Birna en hún keppti á sínu fyrsta meistaramóti þegar hún var tíu ára gömul.

„Ég man vel eftir því móti. Ég var eini krakkinn sem spilaði og ég fékk að leika með konunum. Þær voru mjög glaðar að fá mig í hópinn og það gladdi þær að ég vann þær í keppninni þegar ég lék níu holur á 72 höggum.“

Áhuginn fór vaxandi hjá Ástu Birnu á þessum tíma og hún lék mest með eldri kylfingum á Djúpavogi og lærði margt af því.

„Frændi minn var á kafi í golfinu á þessum tíma og hann reif starfið upp með dugnaði sínum. Ef ég man rétt þá voru um 30–40 í klúbbnum á þessum tíma sem var mikið miðað við stærð samfélagsins. Það komu kylfingar frá Austfjörðum í mót hjá okkur og þetta var skemmtilegur tími. Ég spilaði mest með frænda mínum og vinum hans. Ég vildi vinna þá og keppnisskapið var til staðar hjá mér. Það voru aldrei neinar æfingar, ég spilað bara golf og keppti þegar ég gat á unglingamótaröð sem var í gangi á Austurlandi á þessum tíma,“ segir Ásta Birna.

Hún bendir á að þegar áhuginn á golfi á Djúpavogi fór vaxandi hafi verið sett upp 200 metra langt æfingasvæði með púttflöt. „Það breytti miklu fyrir okkur krakkana. Við hittumst oft á kvöldin til að slá á þessu svæði. Það var mjög þægilegt að geta gengið með settið stutta vegalengd til að æfa sig.“

Leikur í efstu deild í Þýskalandi

Eins og áður segir er Ásta Birna búsett í Þýskalandi. Hún leikur fyrir Golfclub Hubbelrath í 1. deild í Bundesligunni þar sem hún rifjar upp gamla keppnistakta.

„Ég byrjaði að keppa með klúbbnum hér í Lippstadt en ég náði engum framförum á þeim tíma. Við komumst upp í 2. deild sem var mikil reynsla fyrir okkar lið. Við féllum síðan með minnsta mun eða einu höggi. Í lok ársins 2016 fór ég í Golfclub Hubbelrath, við spilum í 1. Bundesligu norður og erum eins og er í 3. sæti. Planið er að ná 2. sæti í lok tímabilsins til þess að komast inn í lokakeppnina um meistaratitilinn.

Í lokakeppninni koma saman tvö bestu liðin úr norður- og suðurdeildinni. Keppnin er svipuð og á Íslandsmóti golfklúbba heima á Íslandi. Ég hef einnig tekið þátt á 3–4 alþjóðlegum mótum á ári, í Hollandi, Skotlandi, Danmörku og hér í Þýskalandi,

Ásta hefur lítið getað komið til Íslands að spila vegna vinnu og verkefna með félagsliði sínu í Þýskalandi.

„Ég kom heim 2013 og keppti á Íslandsmótinu. Ég hefði ekkert á móti því að koma oftar, en maður er víst ekki með óendanlegt magn af frídögum og svo er kostnaðurinn ekki svo lítill.

Mér finnst alltaf gaman að fylgjast með Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Valdísi Þóru Jónsdóttur. Það er einnig gaman að Guðrún Brá Björgvinsdóttir er að bætast í hópinn, svo fylgist ég líka smá með Íslandsmótinu í golfi. Ég hefði ekkert á móti því að koma heim í Íslandsmótið en helgina sem mótið er haldið er ég alltaf með liðinu mínu í keppnisferð. Það er ekki svo vel séð ef ég mæti ekki,“ sagði Ásta Birna Magnúsdóttir.

Ásta Birna Magnúsdóttir í keppni í Þýskalandi

 

Ásta Birna Magnúsdóttir í keppni í Þýskalandi
Exit mobile version