Golfkennarar landsins voru fyrstir til að sækja SNAG leiðbeinendanámskeið og tileinka sér margverðlaunaða kennslufræði snagsins. Þeir tóku snaginu fagnandi til nýliðakennslu, kynninga og til að gera inniæfingar og keppnir fjölbreyttari og skemmtilegri fyrir kylfinga yfir vetrartímann.
Íþróttakennarar og aðrir áhugasamir kennarar í grunnskólum og framhaldsskólum hafa í auknum mæli sótt námskeið og hafið kennslu á SNAG golfi í íþróttatímum eða valáföngum. Einnig hefur SNAG verið kennt í heilsdagsskólum, leikskólum og háskólum. SNAG golf hefur því verið kennt á öllum skólastigunum í landinu.
Almennir kylfingar, fólk sem fylgist með nýjungum í golfheiminum og fólk sem hefur áhuga á að útbeiða golfið í sínu umhverfi hefur einnig slegist í hóp SNAG leiðbeinenda með því að sækja námskeið. Þeir hafa kynnt og kennt SNAG golf út um allt land og farið með SNAG golfið þangað sem fólkið er; á íþróttadaga, fyrirtækjadaga og keppnir, félagsmiðstöðvar unglinga og aldraðra, hjúkrunarheimili, kirkjustarf, tómstundastarf fatlaðra, ungbarnanámskeið, barna- og unglingaafmæli, kvenna- og nýliðastarf svo eitthvað sé nefnt.
SNAG leiðbeinendurnir eru bæði karlar og konur á aldrinum 14-80 ára. Þeir eru staðsettir í 30 sveitarfélögum víða um land. Yfirleitt gengur þetta þannig fyrir sig að einn aðili frá hverjum golfklúbbi eða skóla kemur á námskeið og svo smá saman bætast fleiri leiðbeinendur í hópinn frá sama stað sem gerir slagkraftinn meiri og útbreiðsluna auðveldari.
SNAG leiðbeinendurnir hjálpast að og styðja hvern annan í fyrstu skrefunum og svo eykst reynsla þeirra og færni með æfingunni. Þeir hafa samband sín á milli og miðla fréttum, æfingum og stuðningi í sérstökum hópi SNAG leiðbeinenda á Facebook. SNAG frumkvöðlarnir smita áhuga sínum einnig til nágranna- golfklúbba, -skóla og -sveitarfélaga. Því eru að myndast 7 kjarnar í snaginu hringinn í kringum landið og eru 5 þeirra að verða nokkuð öflugir. Eftir því sem SNAG leiðbeinendunum fjölgar um landið mun hver kjarni verða sterkari, samvinnan á milli þeirra aukast og áframhaldandi stuðningur við þá í útbreiðslu golfsins verður auðveldari.
Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í að útbreiða golfið með SNAG þá verður næsta SNAG leiðbeinendanámskeið föstudaginn 13. mars í Hraunkoti í Keili í Hafnarfirði. Nánari upplýsingar um það eru á Facebook/SNAG golf Island og í síma 775-0660