Í framhaldi af upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar í gær, þar sem tilkynnt var um hertar aðgerðir í sóttvörnum óskaði viðbragðshópur GSÍ eftir nánari útskýringum á því hvort 6. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar eigi við um golfiðkun. Að mati hópsins er ekki nægur samhljómur á milli þess að segja annars vegar að íþróttir (þar með talið æfingar og keppni) utandyra án snertingar séu óheimilar og hins vegar leyfa „einstaklingsbundnar æfingar án snertingar, svo sem útihlaup eða sambærilega hreyfingu“.
Svar Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra til GSÍ er afdráttarlaust. Þeir segja að golf falli undir það ákvæði að allar æfingar og keppnir í íþróttum séu nú óheimilar. Samkvæmt þessu ber að loka golfvöllum landsins.
Hér fyrir neðan má sjá svar Víðis og Þórólfs í heild sinni.
Fyrir hönd viðbragðshóps GSÍ,
Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ.
Sæl öll.
Varðandi túlkun á 6. Lið. 5.gr um takmarkanir á starfsemi vegna sérstakrar smithættu í reglugerð um takmarkanir á samkomum vegna farsóttar 1051/2020
Þar segir m.a. „Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.“
Þetta er orðað með sama hætti í minnisblaði sóttvarnlæknis til heilbrigðisráðherra.
Hugsunin bakvið þetta er að einstaklingi sem vill hlaupa eða ganga utandyra sé það heimilt. Þetta var sett í minnisblaðið til að útskýra að ekki væri bannað að hreyfa sig almennt.
Framar í sömu málsgrein er lagt bann við öllum æfingum og keppni í íþróttum.
Nú ber svo við að í tengslum við einstaka íþróttir, t.d. golf, vilja menn túlka það sem svo að stunda sína íþrótt einn t.d. að spila golf einn falli undir undanþáguna um einstaklingsbundna æfingu.
Það teldist hins vegar skipulagt íþróttastarf að t.d. þurfa að skrá sig á rástíma eða spila golf með öðrum.
Það er ljóst að það var ekki hugsun sóttvarnalæknis í minnisblaðinu en líka skiljanlegt að hægt sé að túlka þetta með öðrum hætti en að golf sé óheimilt þegar einn spilar á hverri braut.
Í okkar huga var þetta einfalt og skýrt. Allar æfingar og keppnir í íþróttum væri óheimilar og við töldum golf vera íþrótt.
Núverandi ástand kallar á harðar aðgerðir og því mikilvægt að engin reyni að túlka reglur með þeim hætti að hann sé undanþeginn.
Það þarf að hægja á allri starfsemi í samfélaginu, minka samneyti og óþarfa ferðir fólks. Það að leyfa að spila golf þó að aðeins einn sé á hverri braut er ekki í anda aðgerðanna.
Víðir og Þórólfur.