Golfsamband Íslands

Spennandi og viðburðaríkt 80 ára afmælisár framundan – helstu atriði frá kynningarfundi GSÍ

Í dag fór fram kynningarfundur hjá Golfsambandi Íslands þar sem að helstu atriðin á golfsumrinu 2022 voru kynnt til sögunnar. Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, opnaði fundinn og sagði m.a. frá því að golfvellir landsins hafi komið vel undan vetri og nú þegar hafi aðsókn á golfvelli landsins verið mikil. Fundurinn fór fram í íþróttamiðstöð GKG.

Hulda bætti því við að framundan væri sögulegt ár – þar sem að GSÍ fagnar 80 ára afmæli þann 14. ágúst á þessu ári, en golfsambandið er elsta sérsamband innan raða ÍSÍ. Hún greindi frá því að nýverið hafi verið gerður samstarfssamningur á milli BL og GSÍ. Þar með eru fimm fyrirtæki í „GSÍ fjölskyldunni“ – BL, Icelandair, KPMG, Íslandshótel og Stefnir.

Merki GSÍ hefur verið sett í afmælisbúning í tilefni afmælisársins – og fjölmargt verður gert í tilefni afmælis GSÍ á þessu ári.

Fyrrverandi og núverandi Íslandsmeisturum í golfi í kvenna – og karlaflokki var boðið á fundinn, og var góð mæting úr þeirra röðum. Fyrrverandi Íslandsmeistarar í golfi eru með keppnisrétt á Íslandsmótinu í golfi, að því gefnu að uppfylla forgjafarskilyrði mótsins, og er þetta annað árið í röð sem þessi reglugerð er í gildi.

Hulda dró saman helstu punkta í tilefni 80 ára afmælis sambandsins en 14. ágúst er formlegur afmælisdagur.

Þar sagði forsetinn m.a. að afmælisdagskrá sambandsins hófst í vetur þegar Landsmót í golfhermum fór fram í byrjun ársins en GKG framkvæmdaraðili mótsins. Landsmótið í golfhermum var það fyrsta í röðinni í fyrsta sinn sem sýnt var slíku móti í beinni sjónvarpsútsendingu.

Auglýsingaherferð er í undirbúningi undir merkinu „Golfið er núna“ og “Sláðu í gegn.” Þar verður lögð áhersla á að draga fram þá staðreynd að golfíþróttin henti öllum. Útbreiðsluverkefni á landsbyggðinni verður fyrirferðamikil á árinu. Golfdagar verða í landshlutunum í sumar í samstarfi með KPMG og PGA þar sem markmiðið er að kynna íþróttina fyrir heimafólki og hjálpa til við að byggja upp þekkingu hvað kennslu varðar í heimabyggð. Fyrsti Golfdagurinn er á Vesturlandi 26. maí, nánar tiltekið í Stykkishólmi og verður tilgangurinn að varpa ljósi á umfang golfsins í þeim landshluta um leið. Opið hús verður hjá golfklúbbum landsins – þar sem að ýmislegt verður í boði fyrir gesti. Klúbbarnir verða með slíkar hátíðir á ýmsum dagsetningum í sumar.

Í afmælisvikunni, eða dagana 4. – 14. ágúst verður sérstök áhersla lögð á þátttöku almennra kylfinga, sem skila inn skorkorti eða ljósmynd, í verðlaunaleik. Dregið verður úr innsendum upplýsingum og verður þetta verkefrni kynnt nánar síðar.

Skrásetning á golfsögunni heldur áfram – og árunum 2010-2021 verður gerð skil með ýmsum hætti á miðlum GSÍ. Golfsambandsi hefur einnig sett verkefni af stað þar sem að markmiðið er að aðstoða golfklúbba landsins við varðveislu á myndasöfnum og útgáfu – á vefsvæðum GSÍ.
Nýir hlaðvarpsþættir fara fljótlega í loftið þar sem að ýmis málefni úr golfsamfélaginu verða til umfjöllunar og er þetta ný leið til að miðla upplýsingum úr innra starfi golfhreyfingarinnar.
Útgáfa á blaði er fyrirhuguð í aðdraganda Íslandsmótsins í golfi og nýjar upplýsingasíður um Íslandsmótin á golf.is eru í vinnslu – en þar á að halda utan um sögu Íslandsmótanna, úrslit, myndir og ýmislegt annað.

Golfklúbbar landsins fá m.a. nýja GSÍ afmælisfána, ásamt kynningarbæklingi þar sem að lýðheilsu og heilsuágóða golfleiks er gert hátt undir höfði – með áherslu á tengingu við bæjar – og sveitarfélög. Golfklúbbar landsins fá einnig aðstoð frá GSÍ við að skipuleggja einfaldar æfingar á leikjanámskeiðum fyrir börn og á kynningum fyrir nýliða í íþróttinni,“ sagði Hulda m.a. í kynningunni í dag.

Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, tók næstur til máls og fór yfir helstu atriðin í mótahaldi hér á landi og erlendis hjá afreks – og landsliðskylfingum GSÍ.

GSÍ mótaröðin hefst um næstu helgi eða þann 20. maí þegar B59 Hotel mótið fer fram á Garðavelli á Akranesi en GSÍ mótaröðin samanstendur af sex mótum Hápunktarnir eru Íslandsmótið í holukeppni 17.-19. júní og Íslandsmótið í golfi í Vestmannaeyjum 4.-7. ágúst
en þess má geta að elsta golfhola landsins er í Vestmannaeyjum þar sem að 8. flötin er að stórum hluta upprunaleg. Íslandsmótið fór fór fyrst fram hjá GV árið 1959 svo það er mikil saga á bakvið Íslandsmótið í Vestmannaeyjum Mótið fór fjórum sinnum fram þar áður en völlurinn var 18 holur og þetta er í fimmta sinn sem það verður á Vestmannaeyjavelli eftir að hann varð 18 holur

Eins og áður hefur komið fram eru fyrrum Íslandsmeistarar í golfi með þátttökurétt á mótinu ævilangt að því gefnu að þeir uppfylli forgjafarskilyrði. Mótaröðinni lýkur með krýningu stigameistara í Korpubikarnum í lok ágúst.

Einnig var farið yfir helstu mótin á unglinga – og áskorendamótaröðinni – þar sem að framtíðarkylfingar landsins fá tækifæri til þess að öðlast dýrmæta keppnisreynslu.

Ólafur fór einnig yfir helstu verkefni landsliða og afreks- og atvinnukylfinga á árinu sem er að finna í glærunum hér fyrir neðan. Þar vakti hann athygli á góðri stöðu hjá atvinnukylfingum Íslands. Þar sem að Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leika báðar á LET Evrópumótaröðinni – sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í kvennaflokki í Evrópu.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús eru báðir með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, sem er í næst efsta styrkleikaflokki í Evrópu.

Á Nordic mótaröðinni hafa aldrei fleiri íslenskir keppendur tekið þátt það sem af er tímabilinu og Axel Bóasson sigraði á móti á þeirri mótaröð í síðustu viku – en mótaröðin er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Mótaröðin hefur reynst góður stökkpallur fyrir íslenska keppendur inn á Áskorendamótaröðina.

Landslið áhugakylfinga fá stór verkefni á árinu, en bæði verður keppt á EM og HM á þessu ári – en keppnishaldið verður með eðlilegu sniði í ár eftir að heimsfaraldur setti keppnishaldið úr skorðum í um tvö ár.

HM landsliða fer fram í Frakklandi og Evrópumót landslið fara fram á þekktum völlum á Bretlandseyjum. Fjölmörg mót eru á dagskrá hjá landsliðskylfingunum og er nánar greint frá þeim hér fyrir neðan.

Myndasafn frá kynningarfundinum er hér:

Exit mobile version