Hacienda Del Alamo golfsvæðið á Spáni verður æfingabækistöð íslenska landsliðsins í golfi á næstu misserum. Golfsamband Íslands skrifaði undir samning þess efnis nýverið.
Markmið samstarfsins við Hacienda Del Alamo er að veita íslenskum landsliðs- og atvinnukylfingum hagkvæm og spennandi tækifæri að æfa að vetrarlagi við frábærar aðstæður.
Landsliðs- og atvinnukylfingar hafa þess kost að halda á svæðið á eigin vegum til viðbótar við skipulagðar æfingaferðir. Landsliðshópurinn fer í sínu fyrstu æfingaferð á svæðið í byrjun næsta árs, dagana 13.-20. janúar 2023.
„Helstu áskoranir íslenskra afrekskylfinga má gjarnan rekja til þess að tímabilið okkar á Íslandi er stutt. Kylfingana skortir fleiri tækifæri til að þróa sinn leik á grasi við góðar aðstæður og öðlast þannig dýpri skilning á leiknum. Inniæfingaaðstaða hefur tekið stakkaskiptum á Íslandi undanfarin ár sem skiptir mjög miklu máli og nú með samningnum við Hacienda Del Alamo getum við einnig boðið upp á dýrmætan æfingatíma við toppaðstæður yfir vetrartímann,” segir Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ.
Boðið er upp á aðgengi að þremur 18 holu golfvöllum, Hacienda Del Alamao, Saurines og Mar Manor. Á Hacienda Del Alamo er svo heimsklassa æfingaaðstaða þar sem finna má 36 sláttubása, grasteig, vippflöt, tvær púttflatir og 6 holu æfingavöll.
Ólafur Björn bendir ennfremur á að þá fjölmörgu kosti sem Hacienda Del Alamo hefur upp á að bjóða.
„Staðsetningin er góð og er völlurinn í rúmlega klukkutíma akstursfjarlægð frá Alicante þar sem flogið er reglulega í beinu flugi til Íslands. Allt skipulag okkar kylfinga einfaldast og við minnkum allan kostnað. Kylfingarnir hafa aukinn fyrirsjáanleika, trausta bækistöð til æfinga og fá vettvang til að efla tengsl sín á milli, styðja hvert við annað og keppa innbyrðis.” segir Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ.