Stefnir og Golfsamband Íslands skrifuðu undir samstarfssamning til þriggja ára á dögunum, en Stefnir er þar með fimmta fyrirtækið í GSÍ fjölskyldunni. Fulltrúar Stefnis og GSÍ hittust á Nesvelli þar sem undirritun samnings fór fram.
„Það er mjög ánægjulegt vera orðin hluti af GSÍ fjölskyldunni. Golfíþróttin er í mikilli sókn hér á landi sem fjölskylduíþrótt og við erum stolt af því að fá að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu með áherslu á útivist, heilbrigði og umhverfismál,“ sagði Jóhann Möller framkvæmdastjóri Stefnis.
Stefnir er 25 ára gamalt sjóðastýringarfyrirtæki, með um 270 milljarða króna í sjóðastýringu. Hlutverk félagsins er að stýra fjármunum í eigu viðskiptavina með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Stefnir býður upp á fjölbreytt úrval fjárfestingarkosta sem fjárfesta í innlendum og erlendum verðbréfum.
Brynjar Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ tók í sama streng: „Við hjá Golfsambandi Íslands hlökkum til að eiga í góðu samstarfi við Stefni til framtíðar og fögnum því að fyrirtækið taki þátt í að styrkja og styðja við golfhreyfinguna.“
Alls eru nú fimm fyrirtæki aðilar að GSÍ fjölskyldunni, Stefnir, Íslandshótel, Icelandair, KPMG og Síminn.