Stefnt er að því að nýr golfvöllur í Rifi á Snæfellsnesi verði gerður og leysi Fróðárvöll við Ólafsvík af hólmi innan fárra ára. Snæfellsbær hefur ákveðið að styðja tillögur Golfklúbbsins Jökuls um slíkt með því að leggja til land og fjármagn.
Umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar hefur samþykkt landnýtinguna, með fyrirvara um athugasemdir við fyrirhugaðri breytingu á aðalskipulagi. Snæfellsbær leggur til fjármagn í verkefnið.
Jón Bjarki Jónatansson, formaður Golfklúbbsins Jökuls, segir að hugmyndir að nýjum golfvelli í Rifi sé ekki ný af nálinni.
„Hjörtur Ragnarsson, sem hefur starfað á Fróðarvelli í mörg ár, hefur rætt um þessa lausn í mörg ár. Að hans mati var mun betri kostur að færa völlinn inn í Rif í stað þess að halda áfram að byggja upp Fróðárvöll. Við fórum saman í sumar að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni i Rifi. Hjörtur seldi mér þessa hugmynd á augabragði. Í framhaldinu höfðum við samband við Edwin Roald golfvallahönnuð. Við fengum Edwin til að skoða svæðið og meta það hvort það væri hægt að búa til 9 holu golfvöll. Edwin gaf þessu svæði toppeinkunn – en það er við hliðina á flugvellinum í Rifi, á fallegum stað undir Snæfellsjökli. Það er nóg af landi til að stækka völlinn i´18 holur ef það reynist þörf á því,“ segir Jón Bjarki.
Að mati forsvarsmanna Gofklúbbsins Jökuls mun nýr golfvöllur í Rifi gjörbreyta starfi klúbbsins. Nýja vallarstæðið er á mun betri stað hvað varðar skjól í ríkjandi vindáttum á svæðinu. Nálægði Snæfellsjökull leikur stórt hlutverk í því að gera vallarstæðið enn áhugaverðara. Það eru því spennandi tímar framundan hjá Golfklúbbnum Jökli.