Verkefnið Stelpugolf fékk í dag styrk frá Íþrótta- og tómstundaráði Garðabæjar. Tilgangur sjóðsins er að styrkja og efla íþróttir kvenna í Garðabæ. Andrea Ásgrímsdóttir, framkvæmdastjóri PGA á Íslandi veitti styrknum viðtöku við setningu 17. júní hátíðarhaldanna í Garðabæ í morgun.
Stelpugolfdagurinn fór fyrst fram fyrir þremur árum á æfingasvæðum GKG og hefur verkefnið vaxið og dafnað frá þeim tíma
„Þessi viðburður hefur gengið einstaklega vel frá byrjun og til okkar hafa komið hundruð kvenna á öllum aldri, sumar konur sem aldrei hafa haldið á golfkylfu og aðrar sem koma til að fá fría kennslu hjá PGA kennurum. Við erum mjög þakklát fyrir þennan styrk sem auðveldar okkur framkvæmdina og ekki síst hvetur okkur til að halda þessu áfram. Það má líka geta þess að þessi viðburður er að stækka og styrkjast. Stelpugolf verður haldið á Akureyri á morgun, laugardaginn 18. júní, og hvet ég allar norðankonur til að mæta á þennan skemmtilega dag á Jaðri.
Verkefnið er samstarfsverkefni PGA og GSÍ sem haldið er í GKG. Aðrir styrktaraðilar að Stelpugolfi í GKG eru: ZO-ON, Icelandair Cargo, Íslandsbanki og Eimskip.