Site icon Golfsamband Íslands

Stelpugolfdagurinn fer fram á nokkrum stöðum á landinu á mánudaginn

Stelpugolfdagurinn fer fram á nokkrum stöðum á landinu mánudaginn 5. júní.  Verkefnið er samstarfsverkefni PGA á Íslandi og GSÍ.

„Þessi skemmtilegi golfdagur hefur fest sig í sessi sem árlegur viðburður. Á síðasta ári var Stelpugolf einnig haldið á Akureyri og Austurlandi og í ár ætla Akranes, Borgarnes og Vestfirði að bætast í hópinn – en á tveimur síðastnefndu stöðunum verður dagurinn haldinn síðar í sumar.  Það verður því sannkölluð golfveisla víða á mánudaginn og við hvetjum alla til að kíkja á okkur og eiga glaða stund með golfívafi,“ segir Andrea Ásgrímsdóttir framkvæmdastjóri PGA á Íslandi.

„Markmiðið með viðburðinum er að efla kvennagolf á Íslandi.  Öllum konum er boðið að koma og prófa golf á þessum degi og karlmenn eru að sjálfsögðu velkomnir líka. Kennsla er þó einungis í boði fyrir konur en í boði eru mismunandi stöðvar þar sem konum er leyft að spreyta sig undir handleiðslu menntaðs PGA kennara. Einnig eru léttir leikir í boði fyrir viðstadda. Dagskráin miðast við að skapa jákvæða upplifun fyrir alla fjölskylduna á golfvellinum.

Stelpugolf hefur verið haldið nokkrum sinnum áður, byrjaði sem skólaverkefni hjá nokkrum nemendum og hefur aldeilis undið upp á sig og er orðið það sem það er í dag. Óhætt er að segja að viðburðurinn hafi verið vel sóttur en í fyrra voru t.d. á milli 600 og 800 konur sem mættu,“ bætti Andrea við.

Exit mobile version