Auglýsing

Einstakt tækifæri gefst til þekkingaröflunar og samtals golfhreyfingarinnar við yfirvöld, stofnanir og fræðimenn í Konunglegu skógfræða- og landbúnaðarakademíunni í Stokkhólmi 7. febrúar nk., en þá fer fram ráðstefna með yfirskriftinni Fjölnota landslag: Tækifæri og áskoranir á norrænum golfvöllum.

Edwin Roald golfvallaarkitekt mun halda erindi á málþinginu, sem nýtur stuðnings norræna umhverfis- og grasarannsóknasjóðsins STERF, sem öll golfsambönd Norðurlandanna, þ.á.m. GSÍ, eiga aðild að. Reiknað er með að fundurinn verði sóttur af forsvarsmönnum golfsambanda og klúbba, fræðimönnum, arkitektum og skipulagsráðgjöfum auk stjórnmála- og embættismanna.

Í erindi sínu mun Edwin segja frá nýja golfvellinum á Siglufirði, sem stefnt er að því að opna á næsta ári, en hann var hannaður sérstaklega til að endurheimta sem mest af glötuðum búsvæðum í nærliggjandi ám og gera svæðið sem aðgengilegast til annarrar útivistar.

Fyrir nokkrum árum gaf STERF út fræðsluritið Opin svæði á golfvöllum – vannýtt auðlind, en þar var bent á gagnkvæman ávinning sem njóta má af því að opna golfvelli betur fyrir öðrum landnotum. Meðal þeirra eru aukinn sýnileiki íþróttarinnar, að  þeir sem ekki leika golf öðlist aðra sýn á leikinn og verði viljugri til að kaupa veitingar á golfskála. Klúbbhús geta þannig nýst betur og lengur yfir árið. Tekjustreymi verður fjölbreyttara og ímynd golfhreyfingarinnar batnar.

Í tilkynningu frá ráðstefnuhaldara segir: „Golfvellir eru stórir landnotendur og skipa ríkan sess í landslaginu. Þar sem megintilgangur þessara svæða er að höfða til golfleiksins verða hagsmunir annarra oft útundan. Þannig er hætt við að árekstrar verði milli golfhreyfingarinnar og annarra hagsmunaaðila, t.d. á sviði jarðræktar, annarrar útivistar og byggðaþróunar.

Á hinn bóginn geta golfvellir gegnt hlutverki í fjölnota landslagi með framlagi í þágu byggðaþróunar, vistverndar, vistfræðilegs fjölbreytileika, varðveislu menningararfs og útivistar – ekki síst í þéttbýli. Geta golfvalla til að gegna slíku hlutverki er háð staðsetningu þeirra, skipulagi og rekstri. Hámörkun þeirra samlegðaráhrifa sem njóta má af golfvöllum krefst skilvirks samstarfs milli aðstandanda golfvallanna og annarra hagsmunaaðila eins og sveitarfélaga, ríkisstofnana, félagasamtaka, landeigenda, íbúa og fyrirtækja.

Tilgangur málstofunnar er að varpa ljósi á þau tækifæri sem golfvellir geta haft í för með sér, ræða þær áskoranir, vandamál og árekstra sem fyrir liggja og koma auga á leiðir til að auka samfélagsframlag golfvalla. Ráðstefnan höfðar til fólks innan golfhreyfingarinnar sem og fulltrúa stjórnvalda, sveitarfélaga, háskóla, landeigenda og annarra hagsmunaaðila.“

Ráðstefnan fer fram á sænsku. Forsvarsmenn golfklúbba eru hvattir til að sækja ráðstefnuna til að fræðast um þau tækifæri sem framsæknir golfklúbbar víða um Norðurlöndin hafa komið auga á, deila reynslu sinni með öðrum og snúa aftur heim með fjölmargar nýjar hugmyndir sem stuðlað geta að stórefldu samstarfi golfklúbbs við viðkomandi sveitarfélag.

Frétt á heimasíðu STERF með tengli á ráðstefnuvef:

https://www.sterf.org/sv/seminars/upcoming-events

Dagskrá:
https://www.ksla.se/wp-content/uploads/2016/09/2017-02-07-Inbjudan-Multifunktionella-landskap.pdf

Skráning:
https://www.ksla.se/aktivitet/multifunktionella-landskap/

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ