Auglýsing

Frétt frá aðalfundi GR:

Aðalfundur Golfklúbbs Reykjavíkur var haldinn í gær og fór fundurinn að þessu sinni fram á Korpúlfsstöðum. Fundarstörf voru með hefðbundnum hætti, formaður klúbbsins fór yfir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið sem leið og gjaldkeri kynnti ársreikning félagsins.

Björn Víglundsson var endurkjörinn formaður klúbbsins og hefur nú sitt fimmta starfsár sem slíkur. Ragnar Baldursson sem starfað hefur í stjórn klúbbsins undanfarin 11 ár og sem varaformaður undanfarin 4 ár gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Stefán Már Stefánsson var kosinn í stjórn sem nýr maður. Við þökkum Ragnari kærlega fyrir sín óeigingjörnu störf á undanförnum árum.

Hagnaður af starfsárinu var 78 milljónir króna til samanburðar við 93 milljónir árið 2017. Tekjur námu alls tæpum 458 milljónum til samanburðar við tæpar 462 milljónir á árinu áður. Golfklúbbur Reykjavíkur annaðist rekstur tveggja golfvalla á árinu ásamt rekstri Bása.

Í lok starfsárs er fjárhagsleg staða klúbbsins sterk en eitt af lykilverkefnum stjórnar á árinu var að greiða niður skuldir og er klúbburinn orðinn skuldlaus í dag. Lagðar hafa verið til hliðar 50 milljónir króna í framvkvæmdarsjóð sem hugsaður er til framtíðaruppbyggingar og er markmið klúbbsins að halda áfram að greiða svipaða upphæð í þann sjóð á næstu árum.

Tillögur að lagabreytingum voru lagðar fyrir fundinn sem samþykktar voru samhljóða af fundargestum. Nánar má sjá þær tillögur í skýrslu stjórnar og verða lög félagsins í samræmi uppfærð á vefsíðu klúbbsins.

Tillaga stjórnar til félagsgjalda 2019 var samþykkt en lögð var til 5% hækkun og verður gjaldskrá komandi árs eftirfarandi:

Félagsmenn 27-70 ára, kr. 108.150
Félagsmenn 19-26 ára, kr. 54.075
Félagsmenn 71-74 ára, kr. 80.850
Félagsmenn 75 ára og eldri, kr. 80.850
Félagsmenn 75 ára og eldri*, kr. 54.075
*enda hafi félagi verið í GR í a.m.k. 10 ár

Kynntar voru breytingar sem verða í innheimtu gjalda á komandi starfsári. Golfklúbbur Reykjavíkur mun nú taka upp notkun á Nóra félagakerfi við skráningu félagsmanna og innheimtu gjalda, notast hefur verið við kerfið í skráningum og greiðslum barna og unglinga undanfarin ár með góðum árangri.

Áfram verður hægt að nýta frístundastyrk sveitarfélaga við greiðslu 6-18 ára á komandi ári og verður gjaldskrá þess aldurshóps þessi:

Heilsársæfingar, kr. 46.200
Hálfsársæfingar, kr. 26.775
Sumaræfingar, kr. 17.010

Á árinu varð 1% aukning í leiknum hringjum á völlum GR frá fyrra ári og má það gott vera miðað við veðurfar. Áberandi mikil aukning varð í leiknum hringjum á 9 holum Korpunnar:

Korpa 9 holur – 33.938 hringir samanborið við 29.826 á árinu 2017
Korpa 18 holur – 31.044 hringir samanborið við 30.187 á árinu 2017
Grafarholt – 28.280 hringir samanborið við 32.780 á árinu 2017

Fækkun var í leiknum hringjum á vinavöllum félagsins en ætla má að veðurfar hafi spilað þar stóran þátt og kylfingar heldur sótt í heimahagana af þeim ástæðum.

Formaður félagsins fór yfir helstu atriði í stefnu GR og að unnið verði áfram að þeim atriðum sem stefnt hefur verið að og má þar helst nefna þetta:

Heilsárstaðstaða til iðkunar golfíþróttarinnar
Golfvellir félagsins verði endurnýjaðir
Móta- og félagsstarf hjá GR miði að því að bjóða upp á eitthvað fyrir alla
GR-bragur einkennist af „klúbbastemmningu“
Þjónusta við félagsmenn sé til fyrirmyndar
Þessi atriði voru niðurstaða þeirrar stefnumótunarvinnu sem átti sér stað hjá klúbbnum á árinu 2017 og er markmið stjórnar að framfylgja þeim.

Golfklúbbur Reykjavíkur vill koma fram þökkum til Ólafi Arinbirni fundarstjóra fyrir faglega og góða fundarstjórn og félagsmönnum fyrir sína þátttöku.

Skýrsla stjórnar

Ársreikningur GR 2018

Stjórn, framkvæmdarstjóri og starfsfólk klúbbsins þakkar félagsmönnum fyrir gott starfsár

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ