GSÍ fjölskyldan
/

Deildu:

Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ
Auglýsing

Gleðilegt sumar kæri kylfingur

Bjartviðrið undanfarna daga færir okkur von og tilhlökkun um að golfsumarið 2025 sé að hefjast af fullum þunga. Nú þegar hafa nokkrir golfvellir opnað inn á sumarflatir meðan aðrir eru á lokametrunum að gera klárt fyrir opnun. Á vefnum rástímar.golf.is má nálgast upplýsingar um hvaða golfvellir eru opnir og hvenær stefnt er að opnun golfklúbba.

Kröftugt vetrarstarf er nú að klárast. Starfið á vegum Golfsambands Íslands fer ekki lengur í frí yfir vetrarmánuðina og hefur starfsemin aukist jafnt og þétt milli ára líkt og hjá flestum golfklúbbum sem reka einnig golfherma aðstöðu yfir vetrartímann. 27.300 iðkendur eru nú skráðir í golfklúbba og varð 9% fjölgun kylfinga á milli ára. Það að um 2000 nýir kylfingar hafi gengið til liðs við golfhreyfinguna milli ára skýrist af mörgum þáttum. En það gæðastarf og sú mikla uppbygging sem átt hefur sér stað í innanhús æfingaaðstöðu golfklúbbanna er án efa eitt af því sem styður við fjölgunina. Mesta fjölgunin er í yngsta iðkendahópnum og er það í takt við markmið Golfsambands Íslands að fara með börn og unglinga í 20% hlutfall iðkenda fyrir árið 2027. Í dag stendur það hlutfall í 14%. 

Í sumarkveðju minni langar mig að stikla á stóru til að gefa innsýn í það mikla og góða starf sem Golfssambandið, í samstarfi við golfhreyfinguna og samstarfsaðila, hefur staðið fyrir í vetur.

Andri Már Guðmundsson og Ragnhildur Kristinsdóttir

Úrslit Landsmótsins í beinni útsendingu – Leikið á Keili í GKG

Landsmótið í golfhermum 2025 var haldið í fjórða sinn og boðið var upp á beina útsendingu frá úrslitarimmunni á Stöð 2 Sport og Facebook síðu GSÍ – golf.is . Metþátttaka var í mótinu í ár en alls hófu 230 karlar og 38 konur keppni. Að lokum voru það Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Andri Már Guðmundsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem stóðu uppi sem sigurvegarar.

Allir gildir félagsmenn í golfklúbbum innan vébanda GSÍ hafa þátttökurétt en hægt er að taka þátt í undankeppnum hvar sem eru TrackMan golfhermar. Landsmótið er huti af mótahaldi GSÍ og er það haldið í samstarfi við Rafíþróttasamband Íslands og GKG sem er jafnframt framkvæmdaraðili mótsins.

Árangur íslenskra háskólakylfinga ratar í sögubækur

Framúrskarandi árangur íslenskra kylfinga í bandaríska háskólagolfinu hefur ratað í fréttir í vetur. Vil ég byrja á óska landsliðskylfingnum Gunnlaugi Árna Sveinssyni úr GKG innilega til hamingju með ævintýralega góðan árangur í vetur. Þetta var fyrsta skólaárið hans í Louisiana State University og spilamennskan í vetur skilaði honum í 38. sæti á heimslistanum. Hann ratar því í sögubækur okkar enda er þetta besti árangur Íslendings á heimslistanum frá upphafi. Sjá besta árangur á heimslista karla og kvenna hér. Auk þess náði Gunnlaugur Árni besta árangri allra nýliða í háskólagolfinu í vetur og var um tíma í 7. sæti á meðal bestu kylfinga Evrópu. Þessi góði árangur hans skilaði honum einnig í Evrópuliðið í Bonnallack Trophy þar sem 12 bestu áhugakylfingar Evrópu mættu 12 bestu áhugakylfingum Asíu/Eyjaálfu í janúar.
Einnig vil ég óska Huldu Clöru Gestdóttur til hamingju með sigur á á Summit League Championship í Arizona fylki í vikunni. Mótið var úrslitamót allra skóla í Summit League deildinni þar sem sigurliðið tryggir sig áfram í svæðiskeppnina sem fer fram á sex stöðum í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Um 260 sóttu grunnnám 92 héraðsdómarar öðlast réttindi

Metfjöldi var sleginn í þátttöku á hérðasdómaranámskeiðum GSÍ fyrir árið 2025. Námskeiðin voru haldin í tveimur hlutum, annars vegar opið námskeið þar sem 216 þátttakendur voru skráðir og hins vegar sérnámskeið fyrir PGA skólann, þar sem 42 golfkennaranemar tóku þátt í námskeiðinu. Alls voru þáttakendur því 258. Þátttaka á þessum námskeiðum er án endurgjalds fyrir aðila innan GSÍ. Þessi námskeið eru haldin árlega af dómaranefnd GSÍ og hentar bæði byrjendum og lengra komnum til að læra golfreglunar. Einnig var í boði að taka próf til að öðlast héraðsdómara réttindi og þreyttu 125 prófið en 92 stóðust það. Frábær þátttaka og dómaranefnd vonast til að sjá enn fleiri þátttakendur að ári.

Landsliðsæfingar á Spáni og Akureyri
Landsliðshópur Íslands í golfi var við æfingar á Spáni 10.-17. janúar. Undanfarin ár hefur æfingabækistöð íslenska landsliðsins verið á Hacienda Del Alamo golfsvæðinu en í ár dvaldi hópurinn á La Finca svæðinu. Þátttakendur voru afrekskylfingar úr átta golfklúbbum ásamt þjálfurum og atvinnukylfingum. Uppleggið var að æfa og spila en um leið að styrkja tengsl ungra efnilegri kylfinganna og reynslumikilla atvinnukylfingnna.
Í mars kallaði Ólafur Björn Loftsson afreksstjóri landsliðshópinn saman á ný. Í það skiptið nutu kylfingar sín í nýrri og glæsilegri æfingaaðstöðu á Jaðri, í inni aðstöðu Golfklúbbs Akureyrar sem opnuð var fyrir áramót.

Aukinn kraftur í barna og unglingastarfið

GolfSixes á Íslandi er tilraunaverkefni með R&A sem hefur verið hleypt af stokkunum. GSÍ í samstarfi við Golfklúbb Mosfellsbæjar, Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar, R&A og CPG stóðu fyrir Golfsixes golfherma-mótaröð barna og unglinga á aldrinum 5-12 ára. Keppnin er haldin er í fjölmörgum löndum, þá utandyra. Ísland sótti um undanþágu á að halda mótaröðina innandyra og er það því í fyrsta sinn sem Golfsixes er haldið í golfhermum. Úrval slíkra móta mun án efa aukast þegar við eigum orðið heimsklassa innanhús aðsstöðu. Þátttakendur voru leystir út með litríkum gjöfum og stefnt er að því að stækka verkefnið á milli ára.

Golfmótaröð í sumar fyri 14 ára og yngri kölluð G14
Í sumar verður settur enn meiri kraftur í gleði og leik fyrir kylfinga 14 ára og yngri. Það er í takt við afreksstefnu Golfsambands Íslands að setja meiri þunga og alvöru í afrekskylfinga um og eftir 14 ára aldur. Fram að þeim aldri er golf íþróttin byggð upp með meiri leikgleði og þjálfun sem miðast við að efla fleri þætti í mótun ungra kylfinga. Hluti af mótaröð kylfinga 14 ára og yngri er viðburður, eða Golfhátíð, sem fram fer á Akranesi dagana 10.-11. júní 2025. Markmiðið er að fá sem flesta kylfinga sem æfa golf á Íslandi á aldrinum 11-14 ára til að taka þátt í Golfhátíðinni og verður margt á boðstólnum innan sem utan vallar. Búast má við kylfingum hvaðanæva af landinu en Golfhátíðin hentar öllum getustigum.

Auk þess kraftmikla starfs sem hér hefur verið greint frá hefur stjórn ásamt nefndum og sérfræðingum unnið að heildar stefnumótun ásamt hugmyndavinnu og langtíma sýn afreksmála fyrir íslenskt golf. Innleiðingarverkefni og uppfærslur tengdar stafrænni vegferð GSÍ eru einnig á dagskrá ásamt fleiru sem kynnt verður á fundum með hreyfingunni á næstu mánuðum og að lokum á Golfþingi í haust. Allt miðast það við að veita kylfingum og golfklúbbum framúrskarandi þjónustu og góða upplifun innan vallar sem utan.

Afmælisbörn ársins eru ….

Golfhreyfingin okkar er hokin af reynslu og einstaka klúbbar eru farnir að nálgast aldarafmæli sín samanber Golfklúbbur Akureyrar sem í ár fagnar 90 ára afmæli. Fleiri klúbbar munu fagna stór afmæli í ár og því verða án efa hátíðarhöld og vegleg uppskeru- og afmælis golfmót á árinu.
Hamingjuóskir á afmælisári eru hér með árettar til eftirfarandi klúbba.

  • Golfklúbbur Akureyrar 90 ára
  • Golfklúbbur Norðfjarðar 60 ára
  • Golfklúbburinn Leynir 60 ára
  • Golfklúbbur Skagastrandar 40 ára
  • Golfklúbburinn Flúðir 40 ára
  • Golfklúbburinn Ós 40 ára
  • Golfklúbburinn Vestarr 30 ára
  • Golfklúbbur Fjarðabyggðar 20 ára

Að lokum vil ég óska ykkur góðra stunda á golfvellinum í sumar!

Kær kveðja
Hulda Bjarnadóttir
Forseti Golfsambands Íslands

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ