Viðtal úr 1. tbl. Golf á Íslandi 2016.
– Markakóngurinn Heiðar Helguson stefnir á hinn fullkomna hring
Heiðar Helguson, fyrrum landsliðframherji í knattspyrnu, og íþróttamaður ársins 2011, er lipur kylfingur en hann er með 7,8 í forgjöf. Heiðar er félagi í GR og fór að fikta við golfíþróttina fyrir um 20 árum en hefur gefið sér meiri tíma í golfið á undanförnum árum.
„Ég hef spilað nokkuð reglulega undanfarin tíu ár. Það er aðeins óljóst hvernig ég byrjaði í golfinu. Ég var eitthvað að leika mér með vinum mínum hér á Íslandi en áhuginn fór vaxandi þegar ég flutti til Englands. Margir af liðsfélögum mínum með ensku liðunum voru í golfi og það varð til þess að ég fór að spila meira golf,“ segir Heiðar en hann lék lengi í ensku úrvalsdeildinni með liðum á borð við Watford, Fulham, Bolton og QPR. Alls lék Heiðar 55 A-landsleiki fyrir Ísland og skoraði hann 12 mörk.
[pull_quote_right]„Það er alveg svakalega gaman að spila golf í góðum félagsskap. Það er það sem ég sækist mest eftir í golfinu, að eiga góðan dag með góðu fólki á golfvellinum.“[/pull_quote_right]
Heiðar rifjar upp góða sögu af félaga sínum sem lenti í smá tjóni með rándýra golfgræju.
„Það var eftirminnilegt þegar ég fór í golf með félagi mínum sem var nýbúinn að kaupa rosalega flotta rafmagnskerru. Hann var afar ánægðu með græjuna og var stoltur á fyrsta teig. Við slógum upphafshöggin og lögðum af stað en hann hafði ekki alveg lært hvernig átti að stjórna kerrunni. Hann réð ekkert við hana og kerran endaði úti í tjörn á fyrstu braut. Það tók góðan tíma að ná kerrunni og golfpokanum upp úr tjörninni. Það var bara slegið eitt högg á þessum golfhring,“ segir Heiðar og gefur ekkert upp hver þessi ágæti maður er.
Eins og áður segir er Heiðar í GR og leikur hann að mestu á heimavöllunum. „Ég tek þó nokkra hringi á öðrum völlum á hverju sumri. Ég spila eins mikið og veður leyfir og markmið sumarsins er að fara einn hring á parinu. Maður verður að hafa markmið.“
Það kemur ekki á óvart að uppáhaldsvöllur Heiðars er á Englandi. „St. Georges Hill í Weybridge á Englandi er í uppáhaldi hjá mér. Rosalegur völlur í fallegu umhverfi og klúbbhúsið er stórkostlegt,“ sagði Heiðar Helguson.