Golfsamband Íslands

Sveinn Snorrason fyrrum forseti GSÍ er fallinn frá

Sveinn Snorrason.

Þær sorgarfréttir bárust á dögunum að Sveinn Snorrason væri fallinn frá. Sveinn fæddist þann 21. maí 1925 og var einn virkasti kylfingur landsins undanfarin 60 ár.

Sveinn var forseti Golfsambands Íslands á árunum 1962-1969 en þar áður hafði hann setið í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur. Sveinn var í fararbroddi við uppbyggingu Golfklúbbs Reykjavíkur og golfsambandsins við afar erfiðar aðstæður og átti stóran þátt í þeirri velgengni sem klúbbur og samband nutu á árunum sem á eftir komu.

Í forsetatíð Sveins fjölgaði golfklúbbum landsins úr þremur í tólf og gegndi Sveinn stóru hlutverki í þeirri miklu uppbyggingu sem átti sér stað innan golfíþróttarinnar á þessum árum. Eftir að Sveinn lét af störfum sem forseti sambandsins starfaði hann lengi í mörgum nefndum og ráðum á vegum GSÍ, auk þess sem hann var einn af stofnendum Landssamtaka eldri kylfinga, LEK. Hann var fyrsti formaður samtakanna og er því óhætt að segja að hann hafi markað varanleg og djúp spor í sögu íþróttarinnar á Íslandi.

Ég færi fjölskyldu hans mínar dýpstu samúðarkveðjur og þakka Sveini fyrir hans mikla framlag í gegnum áratugina.

Með bestu kveðju,
Haukur Örn Birgisson,
Forseti Golfsambands Íslands

<strong>Frá golfmóti á Urriðavelli 2016 þar sem að tveir fyrrum forsetar GSÍ léku með núverandi forseta GSÍ Frá vinstri Júlíus Rafnsson Haukur Örn Birgisson og Sveinn Snorrason<strong>
Exit mobile version