Golfsamband Íslands

Svellkal er óvinur númer eitt – eitt stærsta vandamál íslenskra golfvallastjóra

Frá Byneset-golfvellinum í Noregi. Ljósmynd: Olav Noteng.

Þó loftslagsbreytingar hafi m.a. auðveldað nýjum vágestum eins og myntflekk (e. dollar spot) að herja á norrænar grasflatir, þá er svellkal áfram eitt stærsta vandamál íslenskra golfvallastjóra. Þetta kemur fram í samtölum við fulltrúa STERF. 

„Rannsóknir okkar sýna að við getum enn lágmarkað skaðann, en til þess þurfa þeir sem reka vellina og kylfingarnir sjálfir að hjálpast að,“ segir Maria Strandberg, framkvæmdastjóri STERF, sem er sameiginlegur rannsóknasjóður norrænu golfsambandanna. 

Á Íslandi eru 65 golfvellir. „Ég tel að allir vellirnir eigi hættu, mismikla þó, á að verða fyrir barðinu á svellkali, einfaldlega vegna norðlægrar legu landsins,“ segir Einar Gestur Jónasson, fulltrúi Golfsambands Íslands í stjórn STERF. „Hættan er mest á norðanverðu landinu. Þar verða kalskemmdir á næstum hverju ári,“ bætir Einar Gestur við. 

<strong>Einar Gestur Jónsson <strong>

STERF hóf nýlega samstarf við norska rannsóknarráðið um rannsóknarverkefnið Isbrjótinn (e. Ice-Breaker), sem felst í að lágmarka skaða sem orðið getur á golfvöllum vegna svellamyndunar og umhleypinga, sem virðast ágerast samhliða loftslagsbreytingum. 

Niðurstöður nýlegrar könnunar gefa til kynna að vetrarskaði af þessum völdum geti seinkað voropnun valla um þrjár til fjórar vikur, með fjárhagslegu tjóni sem getur að jafnaði numið um sex til níu milljónum króna. 

Vetrarskaði er efst á forgangslistanum 

Kannanir meðal norrænna golfklúbba gefa einnig til kynna að vetrarskaði er efst á forgangslista þeirra yfir viðfangsefni sem rannsaka þurfi frekar. Þetta segir Trygve S. Aamlid, vísindamaður hjá norsku lífhagfræðistofnuninni NIBIO.

„Á Norðurlöndum eru þó nokkrir golfklúbbar sem hafa nýlega byrjað að breiða yfir flatirnar á haustin. Rannsóknir okkar sýna að þetta getur hjálpað, ef lofti er blásið reglulega inn undir dúkinn. Hér [á rannsóknasvæði NIBIO] þróum við m.a. sjálfvirkt og þráðlaust loftræstikerfi með mælum sem greina m.a. hitastig, súrefnismettun og CO2-innihald undir ábreiðunni,“ segir Trygve. 

Sem aðilar að STERF fylgist Golfsamband Íslands vel með gangi mála. „Vinna STERF á þessu sviði skiptir miklu máli, en við Íslendingar getum einnig lagt hönd á plóg. Til dæmis hefur Golfklúbbur Akureyrar þróað aðferð undanfarin fjögur ár til að flýta fyrir bráðnun svells, sem dregur úr þörf á að brjóta ísinn, fjarlægja snjó o.fl,“ segir Einar Gestur. 

Á varðbergi gagnvart nýjum vágestum 

<strong>Myntflekkur er sveppasýking en einkenni hennar eru einkum ljósir hringlóttir flekkir í sverðinum MyndSTERF<strong>

Myntflekkur er sveppasýking, en einkenni hennar eru einkum ljósir, hringlóttir flekkir í sverðinum. Hún greindist fyrst í Danmörku fyrir um tíu árum, í Noregi 2013 og Svíþjóð ári síðar.

Í dag hefur sýkingarinnar orðið vart á um hundrað golfvöllum í Svíþjóð. Á sumum þeirra hafa skemmdir orðið miklar, allt að 75-80% grasdauði á flötum og brautum. 

„Hingað til hefur myntflekkur ekki verið til vandræða á Íslandi. Við höfum meira þurft að hugsa um aðrar sveppasýkingar, eins og Fusarium. Eigi að síður þurfum við að vera á varðbergi gagnvart nýjum vágestum,“ segir Einar Gestur og leggur áherslu á mikilvægi rannsókna. 

Gefa grösum einkunn 

Gras er meginviðfangsefni STERF, sem stuðlar að sífelldum rannsóknum á grasategundum og yrkjum, en val á þeim getur skipt sköpum.

„Niðurstöður rannsóknanna segja m.a. til um það hvaða tegundir og yrki henta best m.t.t. loftslags og sérstöðu Norðurlandanna hvað varðar birtu,” segir Maria Strandberg. “Einnig er hugað að þáttum eins og þoli grasanna gagnvart sýkingum og samkeppni við illgresi. Upplýsingarnar eru birtar á www.scanturf.org og uppfærðar árlega. Þar er þeim gefin einkunn m.t.t. ýmissa þátta,” segir Maria.

Hún bætir því við að heilbrigða grasumsjón snúist um að finna rétt jafnvægi milli næringargjafar, vökvunar, söndunar, loftunar og sláttar.

„Við höfum einnig sett saman fræðslurit með hagnýtum ráðleggingum sem golfklúbbar eiga að geta auðveldlega nýtt sér, í þágu sparnaðar, framfara og umhverfisverndar.“

<strong>Maria Strandberg framkvæmdastjóri STERF<strong> Mynd Karin Schmidt

STERF verður fimmtán ára á þessu ári. Maria telur að verkefni sjóðsins til þessa hafi reynst norrænum kylfingum, golfklúbbum og golfsamböndum vel.

„Við höfum einnig haft áhrif inn í stjórnmálin. Niðurstöður verkefna okkar hafa m.a. átt þátt í breytingum á orðalagi í Evróputilskipunum um notkun varnarefna,“ segir Maria, en hún telur einnig að STERF hafi lagt ákveðinn grunn að aukinni vitund og þróun hvað varðar loftslagsmál og sjálfbærni í norrænni golfhreyfingu. 

Fleiri hópar fái að nýta golfsvæðin 

Hverjar eru helstu áskorarnirnar framundan „Þær eru að sjálfsögðu margar, en líklega er efst á baugi, eða áhugaverðast, að halda áfram þróun hinna svokölluðu fjölnota golfsvæða, einkum þar sem að borgir og bæir þenjast meira út og samkeppni um grænu svæðin fer harðnandi. Með þessu hugtaki er átt við að golfsvæðin verði opin fleiri hópum en bara kylfingum,“ segir Maria og bendir á fjölmörg dæmi um slík svæði í Skotlandi, þar sem golf og önnur útivist fer vel saman.  

„Þetta samspil golfvallar og nærumhverfis er, þegar betur er að gáð, rótgróinn hluti af golfleiknum, frá fornu fari. Þannig hófst þetta allt saman,“ segir Maria. Einar Gestur tekur undir þetta og segist telja að Ísland geti gegnt þýðingarmiklu hlutverki í þessari þróun, ekki síst þar sem 63 af 65 golfvöllum landsins eru að hluta fjármagnaðir af sveitarfélögum. „Dæmi um þetta er Hlíðavöllur, hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Þar eru útivistar- og reiðstígar innan um og umhverfis golfbrautir. Þetta styrkir m.a. rekstrargrundvöll veitingasölu í golfskála. Á góðum sumardegi iðar svæðið af lífi, þar sem saman koma, auk kylfinga, fjölskyldur skokkandi, hjólandi, ríðandi,“ segir Einar Gestur. 

Claes Salomonsson skrifar:

Staðreyndir

Exit mobile version