Strandvöllur í stórbrotnu umhverfi í Bolungarvík


Golfklúbbur Bolungarvíkur var stofnaður árið 1982 og klúbburinn fagnaði 33 ára afmæli í apríl á þessu ári. Syðridalsvöllur er rétt fyrir utan þéttbýliskjarnann í Bolungarvík og því stutt að fara á eina af földu perlum Vestfjarða. Syðridalsvöllur var formlega tekinn í notkun árið 2002 en eitt af einkennum vallarins er að þrátt fyrir að holurnar séu aðeins níu eru mismundandi teigasett á hverri holu og töluverður munur er oft á þeim teigum.

Landið við Syðridalsvöll er mjög sendið en Landgræðsla ríkisins hafði áður lagt mikla vinnu í að hefta sandfok á þessum slóðum. Syðridalsvöllur er strandvöllur í stórbrotnu umhverfi, umlukinn sandhólum og melgresi.  

Það eru ekki margir slíkir vellir hér á landi og óhætt að mæla með kynna sér völlinn nánar á ferðalagi um Vestfirði.

Syðridalsvöllur í Bolungarvík er án efa með eitt þekktasta klúbbhús landsins eftir að kvikmyndin Albatross var frumsýnd s.l. sumar. Kvikmyndin gerist að mestu á vellinum og er óhætt að segja að kastljósinu hafi verið varpað á þennan skemmtilega völl.

Jóhann Þór Ævarsson er formaður Golfklúbbs Bolungarvíkur. Málarameistarinn sagði í samtali við Golf á Íslandi að félagsstarfið gangi ágætlega. „Erfið veðurtíð undanfarin misseri hefur sett strik í reikninginn á mörgum sviðum. Reksturinn gengur samt sem áður ágætlega en við vonumst til þess að fleiri kylfingar bætist í hópinn hjá okkur á ný. Þá sérstaklega yngri kylfingar en það er mikil samkeppni um þeirra frítíma,“ sagði Jóhann en hann bendir á að félagsmenn geti einnig leikið á öðrum völlum á Vestfjörðum á sérstökum kjörum.

Kylfingur á ferðinni við 1. flötina á Syðridalsvelli.

Horft yfir þriðju flötina og fjallið Traðarhyrna gnæfir yfir bænum Bolungarvík.

Jóhann Þór Ævarsson er formaður Golfklúbbs Bolungarvíkur.

(Visited 1.291 times, 1 visits today)