Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands kom færandi hendi á aðalfund GR sem haldinn var í gærkvöldi. Hann færði klúbbnum skjöld sem er þakklætisvottur fyrir framkvæmd Íslandsmótsins í golfi 2013. Skildinum, sem er úr graníti, er ætlaður staður á Korpúlfsstaðavelli og mun hann koma til með að geyma söguna um ókomna tíð.
„Golfklúbbur Reykjavíkur, forsvarsmenn klúbbsins, starfsfólk, sjálfboðaliðar og félagsmenn lögðust allir á eitt og niðurstaðan varð glæsilegt Íslandsmót í golfi. Allir þessir aðilar mega vera stoltir af þessum árangri, sem um var rætt langt út fyrir veggi klúbbsins.“ sagði Haukur Örn m.a. við þetta tækifæri.