/

Deildu:

Auglýsing

Íslenska golfsumarið verður umfjöllunarefni sjö hálftíma langra þátta á RÚV í sumar, sem Hlynur Sigurðsson dagskrárgerðarmaður mun hafa umsjón með. Viðtalið sem er hér fyrir neðan er úr 2. tbl af Golf á Íslandi.

„Við leggjum upp með að fjalla um málefni sem kylfingar láta sig varða, sama hvort þeir eru byrjendur eða lengra komnir,“ segir Hlynur, sem sjálfur hefur stundað golfíþróttina síðan um aldamót, og er núna með 13,7 í forgjöf. „Við vonum auðvitað að einhverjir sem horfa á þættina smitist af golfbakteríunni og byrji að stunda íþróttina, en fyrst og fremst verður þetta þáttur fyrir kylfinga.“

Fyrsti þátturinn verður á dagskrá um miðjan júlí, eftir að Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu lýkur, en um næstu mánaðamót verður sérstakur þáttur um Íslandsmótið í holukeppni sem haldið verður á Hvaleyrinni.

Mótaröðin í fréttum

Hlynur mun fylgjast með Eimskipsmótaröðinni í sumar fyrir RÚV, en sú umfjöllun verður ekki í golfþættinum, heldur meðal annarra íþróttafrétta á RÚV. „Við ákváðum að gera mótaröðinni góð skil í íþróttafréttum, en viljum ekki leggja þættina undir frásagnir af hverju og einu móti,“ segir Hlynur. Með honum í sumar verður Benedikt Nikulás Ketilsson, þrautreyndur myndatökumaður og framleiðandi þáttanna.

Sérstök athygli á efnilega kylfinga

En þótt umfjöllun um mótaröðina og úrslit á einstökum mótum verði í fréttum, verður keppnisgolf ekki útundan í þáttunum.

„Ég hef sérstakan áhuga á þeirri kynslóð sem er að koma upp núna og slá í gegn,“ segir Hlynur. „Það er ljóst að það eru að koma fram á sjónarsviðið mjög efnilegir kylfingar sem eiga eftir að setja mark sitt á íslenskt keppnisgolf og við ætlum að fjalla sérstaklega um nokkra þeirra, þar á meðal Sunnu Víðisdóttur úr GR og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur úr GK, tvær ungar konur sem hafa verið að standa sig vel á mótaröðinni í sumar, Fannar Inga Steingrímsson, kylfinginn unga úr Hveragerði sem er gríðarlegt efni, og Ragnar Má Garðarsson úr GKG, sem sigaði á tveimur fyrstu mótunum í Eimskipsmótaröðinni. Allt eru þetta kylfingar sem eiga framtíðina fyrir sér í keppnisgolfi, og við ætlum að kynnast þeim betur í þáttunum í sumar,“ segir Hlynur.

Uppáhaldsholan mín

„Við ætlum líka að grípa þjóðþekkta kylfinga og láta þá segja okkur frá uppáhalds holunum sínum,“ segir Hlynur. „Það er eitthvað sem allir kylfingar eiga sameiginlegt held ég, að taka einhverja eina braut fram yfir aðrar. Ástæðurnar eru kannski mismunandi, en ég held að þú getir spurt hvaða kylfing sem er um þetta, og þú færð alltaf ákveðið svar.“

Og þá blasir við að spyrja væntanlegan spyrjanda: Hver er þín uppáhalds?

„Ég ætla að svindla aðeins og fá að velja tvær,“ segir Hlynur og hlær við. „Ég á nefnilega erfitt með að gera upp á milli 7. holunnar á Keili, og þeirrar 12. á Kiðjabergi. Þetta eru báðar par 5 holur. Sú síðarnefnda liggur niður að Hvítánni, og er hreint mögnuð, þó ekki væri nema fyrir útsýnið. Sú fyrrnefnda er í uppáhaldi hjá mér vegna þess að hún býður upp á tækifæri til að skora, þori maður að skera annað höggið yfir hrauntangann til hægri – og svo er hún líka ein af fáum holum þar sem meðalskussar eins og ég eiga fræðilegan möguleika á að komast inn á flöt í tveimur höggum og pútta fyrir erni!“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ