Site icon Golfsamband Íslands

„Þetta verður mikil upplifun“

Hörður Geirsson, alþjóðadómari.

– Alþjóðadómarinn Hörður Geirsson dæmir á Opna breska á Royal Troon

Forsvarsmenn GSÍ hafa á undanförnum árum unnið að því að fá verkefni fyrir íslenska dómara á stórmótum erlendis. Mikil gleðitíðindi bárust í vor í bréfi frá David Rickman hjá R&A í Skotlandi þar sem yfirmaður dómaramála hjá alþjóðasambandinu tilkynnti að Hörður Geirsson, alþjóðadómari, úr Golfklúbbnum Keili yrði einn af dómurum á Opna breska meistaramótinu.

Hörður er fyrsti dómarinn frá Íslandi sem fær slíkt verkefni á einu af risamótunum fjórum í karlaflokki. Þorsteinn Svörfuður Stefánsson fór á sínum tíma og dæmdi í Solheim keppninni sem fór fram árið 2003 í Svíþjóð.

Það ríkir mikil tilhlökkun hjá Herði að takast á við þetta verkefni sem verður án efa mikið ævintýri. Mótið í ár er það 145. í röðinni og í níunda skipti sem það fer fram á Royal Troon vellinum við Ayrshire á vesturströnd Skotlands.

„Ég hef farið sem áhorfandi á Opna breska en ég sá mótið á Royal Birkdale árið 2008 í vonda veðrinu sem þar gekk yfir. Ég hef aldrei komið á Troon völlinn og þetta verður án efa mikil upplifun og það ríkir mikil tilhlökkun hjá mér. Mér líður eins og barni sem bíður eftir jólunum,“ segir Hörður við Golf á Íslandi en hann heldur til Skotlands mánudaginn 11. júlí. „Ég fer til Skotlands mánudaginn 11. júlí en mótið hefst fimmtudaginn 14. júlí og því lýkur sunnudaginn 17. júlí. Það er mikill undirbúningur sem fylgir þessu verkefni, ég þarf að kynna mér völlinn vel enda hef ég aldrei komið á Troon völlinn í Skotlandi.“

Nánar verður fjallað um ævintýri Harðar í 2. tbl. Golf á Íslandi sem kemur út í næstu viku.

 

Exit mobile version