Site icon Golfsamband Íslands

Þórður með sinn besta árangur – fínn dagur hjá atvinnukylfingunum

Þórður Rafn Gissurarson

Það er mikið um að vera um þessa helgi hjá íslensku atvinnukylfingunum sem leika á sterkum mótaröðum um Evrópu. Þórður Rafn Gissurarson úr náði sínum besta árangri á þýsku Pro Golf mótaröðinni í dag. GR-ingurinn endaði í þriðja sæti á -8 samtals eftir 54 holur.

Hann lék lokahringinn á -1 en hann lék hringina þrjá á (69-66-70). Þetta var 16. mótið hjá Þórði á þessu tímabili á mótaröðinni sem er í hópi þriðju sterkustu mótaraða Evrópu. Hann var í 31. sæti á stigalista mótaraðarinnar fyrir mótið en er í 24. sæti þessa stundina. Þetta er besti árangur Þórðar á þessu tímabili en hann hafði einu sinni náð 8. sæti.

Lokastaðan hjá Þórði: 

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG, Íslandsmeistari í golfi, er í góðri stöðu fyrir lokahringinn á Áskorendamótaröðinni sem fram fer á Kanaríeyjum.

Birgir er samtals á -11 en hann lék á -3 í dag þar sem hann fékk alls fimm fugla en tapaði tveimur höggum með skramba á par 3 holu. Hann er í 7.–13. sæti fyrir lokahringinn. Það er að miklu að keppa fyrir Birgi á þessu móti en hann þarf að vera á meðal 10 efstu til þess að fá boð um að taka þátt á næsta móti á Áskorendamótaröðinni – sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu.

Staðan fyrir lokahringinn hjá Birgi: 


Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR endaði í 21. sæti á  LETAS móti sem fram fór í Belgíu. Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni komst einnig í gegnum niðurskurðinn á mótinu og endaði hún í 34.–35. sæti.

Ólafía, sem er ríkjandi Íslandsmeistari, náði góðum lokahring, þar sem hún lék á 70 höggum en Valdís Þóra lék á 75 höggum. Ólafía lék á +3 samtals (75-74-70) en Valdís var á +6 (74-73-75). Ólafía er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi mætir í titilvörnina í næstu viku á Garðavelli en Valdís Þóra verður einnig á meðal keppenda á heimavelli sínum á Akranesi.

Lokastaðan hjá Valdísi og Ólafíu: 

 

Exit mobile version