Site icon Golfsamband Íslands

Þórður Rafn nýr íþróttastjóri GR og Haukur Már kemur inn í þjálfarateymið

Frá vinstri: David Barnwell, Derrick Moore, Þórður Rafn og Haukur Már. Mynd/GR

Þórður Rafn Gissurarson hefur verið ráðinn til starfa sem íþróttastjóri GR og tekur hann við starfinu af Snorra Pál Ólafssyni. Þórður Rafn hóf störf þann 1. desember s.l..

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Golfklúbbi Reykjavíkur. Samhliða ráðningu Þórðar var gengið frá ráðningu Hauks Más Ólafssonar PGA golfkennara í þjálfarateymi GR.

Verksvið Þórðar Rafns verður að skipulag barna-, unglinga- og afreksstarfsins í heild auk þess að tryggja gott samskiptaflæði við foreldra og iðkendur í starfinu.

Tilkynningin í heild sinni er hér fyrir neðan:

Þórður Rafn Gissurarson hefur verið ráðinn til starfa sem íþróttastjóri GR og tekur hann við starfinu af Snorra Pál Ólafssyni. Þórður Rafn mun formlega hefja störf þann 1. desember næstkomandi. Hans verksvið verður skipulag barna-, unglinga- og afreksstarfsins í heild auk þess að tryggja gott samskiptaflæði við foreldra og iðkendur í starfinu.

Þórður Rafn ætti að vera félagsmönnum Golfklúbbs Reykjavíkur vel kunnugur en hann hefur spilað undir merkjum klúbbsins í fjölda ára. Þórður var í atvinnumennsku frá árinu 2011 til ársins 2017. Á sínum tíma sem atvinnukylfingur spilaði hann mestmegnis á þýsku Pro Golf Tour mótaröðinni auk þess að hafa spilað á öðrum mótaröðum þ.á.m. Challenge Tour.

Golfklúbbur Reykjavíkur hefur einnig fengið til liðs við sig Hauk Má Ólafsson í þjálfarateymi klúbbsins. Haukur Már Ólafsson útskrifaðist sem PGA Golfkennari frá PGA á Íslandi árið 2015. Haukur hefur sinnt ýmsum störfum hjá GKG síðustu ár auk þess að sinna einkakennslu hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar sumarið 2020. Haukur mun vera í hlutverki stutta spils þjálfara hjá meistaraflokki ásamt almennri þjálun barna og unglinga.

Ennfremur hefur samningur við Derrick Moore verið framlengdur og mun hann nú sinna stöðu yfirþjálfara og tekur því við taumunum í því hlutverki af Snorra Pál. Auk Derrick og Hauks mun David G. Barnwell áfram sinna þjálfun barna og unglinga.

Um leið við bjóðum nýjan íþróttastjóra velkomin til starfa viljum við þakka Snorra Pál fyrir ómetanleg og óeigingjörn störf fyrir klúbbinn í gegnum tíðina og óskum honum velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Golfklúbbur Reykjavíkur

Exit mobile version