/

Deildu:

Þorvaldur og Emil GO
Auglýsing

Emil Emilsson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds eftir rúmlega fimm ára starf. Síðasti starfsdagur Emils var 15. apríl síðastliðinn en hann hefur starfað hjá klúbbnum frá ársbyrjun 2010. Þorvaldur Þorsteinsson tekur við sem framkvæmdastjóri klúbbsins. Hann þekkir rekstur klúbbsins vel og hefur setið í stjórn klúbbsins undanfarin fjögur ár, þar af þrjú ár sem gjaldkeri. Þorvaldur er hér til vinstri á myndinni og Emil til hægri.

„Tími minn hjá Golfklúbbnum Oddi hefur verið mjög ánægjulegur. Ég geng sáttur frá borði og stoltur af því sem hefur áunnist. Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu því frábæra fólki sem er í Golfklúbbnum Oddi. Ég vil þakka félögum í Oddi fyrir samstarfið og óska öllum sem koma nálægt þessum frábæra klúbbi góðs gengis,“ segir Emil á þessum tímamótum.

Þorvaldur hóf störf hjá klúbbnum í síðasta mánuði. Hann er 51 árs gamall og útskrifaðist með cand.oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1991. Hann hefur starfað síðastliðin 11 ár hjá Landsbankanum, m.a. sem deildarstjóri einkabankaþjónustu. Þorvaldur hefur verið félagi í Golfklúbbnum Oddi frá árinu 2007 og er liðtækur kylfingur með um 10 í forgjöf. Hann er giftur Sonju Maríu Hreiðarsdóttur og saman eiga þau tvö uppkomin börn.

Spennandi tímar framundan

„Það er ánægjulegt að vera kominn til starfa hér á Urriðavelli. Það er gott að vinna með öflugu og reynslumiklu starfsfólki og forréttindi að að vera í samskiptum við okkar frábæru klúbbmeðlimi,“ segir Þorvaldur.

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu margir klúbbmeðlimir bera hag svæðisins fyrir brjósti og eru boðnir og búnir að aðstoða við ýmislegt sem upp getur komið í rekstri svona klúbbs. Það eru spennandi tímar framundan og mörg skemmtileg verkefni sem vinna þarf að.  Vonandi verður sumarið okkur hagstætt með góðu golfveðri.“

Golfklúbburinn Oddur er einn stærsti golfklúbbur landsins með um 1150 félagsmenn. Klúbburinn var stofnaður árið 1993 og er staðsettur í Urriðavatnsdölum skammt fyrir ofan Garðabæ. Klúbburinn hefur yfir að ráða einum glæsilegasta golfvelli landsins, Urriðavelli, en á þeim velli fer fram Evrópumót kvennalandsliða í golfi á næsta ári sem verður stærsta alþjóðlega golfmót sem haldið hefur verið hér á landi til þessa.
Séð yfir 15. flötina á Urriðavelli.
Séð yfir 15 flötina á Urriðavelli

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ