Þrír íslenskir kylfingar eru á meðal keppenda á Nordic atvinnumótaröðinni sem fram fer í Svíþjóð næstu daga. Mótið heitir Stora Hotellet Fjällbacka Open og fer það fram á samnefndum velli – Fjällbacka Golfklubb. Leiknir verða þrír hringir á þremur keppnisdögum.
Íslensku keppendurnir eru Andri Þór Björnsson (GR), Bjarki Pétursson (GKG) og Aron Bergsson sem hefur keppt fyrir GKG á Íslandi en hann er búsettur í Svíþjóð og er í Hills golfklúbbnum.
Ecco Tour er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu og er að mestu leikið á völlum á Norðurlöndunum.
Mótaröðin getur opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina, ChallengeTour, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu – þar sem að Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru með keppnisrétt eftir að hafa náð frábærum árangri á Ecco Tour.
Axel Bóasson, GK, hefur einnig komist inn á Áskorendamótaröðina með frábærum árangri á þessari mótaröð. Axel sigraði í síðustu viku á móti á þessari mótaröð.