Golfsamband Íslands

Þrír íslenskir kylfingar keppa á Opna breska áhugamannamótinu á Royal Lytham og St. Annes Old Links

Opna breska áhugamannamótið (The Amateur Championship) hófst í dag í Lytham St. Annes á vesturströnd Englands.

Keppt er á tveimur völlum, Royal Lytham og St. Annes Old Links, sem eru þekktir keppnisvellir og eru staðsettir eru fyrir norðan Liverpool og rétt sunnan við Blackpool. 

Mótið á sér langa sögu en fyrsta var það haldið árið 1885 þar sem að 44 kylfingar frá 12 klúbbum á Bretlandseyjum tóku þátt. Margir þekktir kylfingar hafa náð að sigra á þessu móti á upphafsárum ferils þeirra og má þar nefna Bobby Jones, Sergio Garcia og José María Olazábal.

Það er að miklu að keppa þar sem að sigurvegarinn tryggir sér keppnisrétt á tveimur risamótum, Opna mótinu á Bretlandseyjum og Opna bandaríska meistaramótinu (US Open). Sú hefð hefur einnig verið til staðar að sigurvegaranum er boðið að taka þátt á Mastersmótinu á Augusta vellinum.

Nánari upplýsingar um mótið, rástímar, skor og úrslit.

Þrír íslenskir kylfingar taka þátt, Hlynur Bergsson (GKG), Kristófer Karl Karlsson (GM) og Hákon Örn Magnússon (GR). Alls eru 288 keppendur og eru þeir allir í fremstu röð áhugakylfinga á heimsvísu. Leiknar eru 36 holur og að þeim loknum tekur við holukeppni þar sem að 64 efstu leika til úrslita. Hlynur Bergsson komst í 32 manna úrslit í fyrra.

Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri Golfsambands Íslands, er með í för og segir Ólafur að æfingadagarnir hafi verið leiknir við krefjandi aðstæður en framundan sé rólegra veður á keppnissvæðinu.

„Lykillinn að árangri næstu tvo daga er að halda boltanum í leik, forðast brautarglompurnar, hala inn pörum og nýta tækifærin þegar þau gefast. Undirbúningurinn hefur gengið vel og leikskipulagið klárt hjá okkar kylfingum. Vindurinn hefur verið í stóru hlutverki á æfingahringjunum, 10 metrar á sek, og aðstæður krefjandi. Það er spá hægari vindi næstu daga og þeir þurfa því ekki eins ýkt högg til þess að berjast gegn vindinum. Báðir vellirnir eru krefjandi og þá sérstaklega Royal Lytham sem er heldur lengri,“ segir Ólafur Björn við golf.is.

Íslensku kylfingarnir leika allir á St. Annes Old Links í dag og er búist við aðeins betra skori á þeim velli. Þeir leika allir á Royal Lytham á þriðjudag. Samtals eru um 300 glompur á keppnivöllunum. Það eru 168 glompur á Royal Lytham og 130 á St. Annes Old Links. Allt pottglompur sem refsa yfirleitt mikið. Glompurnar voru fleiri á báðum völlunum en þeim hefur farið fækkandi. Árið 2012 voru 207 glompur á Royal Lytham þegar Suður-Afríkumaðurinn Ernie Els sigraði á Opna mótinu. 

Royal Lytham & St Annes er einn þekktasti keppnisvöllur Bretlandseyja. Opna mótið hefur alls farið 11 sinnum fram á þeim velli og tvívegis hefur verið keppt um Ryderbikarinn á þessum velli.

Exit mobile version