– Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA – Viðtal úr 3. tbl. Golf á Íslandi 2016
„Það ríkir mikil tilhlökkun hjá okkur hér hjá Golfklúbbi Akureyrar og það er mikill heiður að fá að halda stærsta golfmótið, sjálft Íslandsmótið í golfi, hér á þessum frábæra Jaðarsvelli,“ segir Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA í viðtali í Golf á Íslandi sem er væntanlegt inn um bréfalúguna hjá kylfingum landsins á allra næstu dögum.
Ágúst hefur mikla reynslu af framkvæmd Íslandsmótsins í golfi en hann var yfirvallarstjóri hjá Golfklúbbi Reykjavíkur þegar mótið fór fram á Korpúlfsstaðavelli árið 2013. Ágúst, sem er menntaður viðskiptafræðingur frá háskólanum á Akureyri og golfvallafræðingur frá Elmwood í Skotlandi, tók við sem framkvæmdastjóri GA haustið 2013.
Þegar rætt var við Ágúst voru nokkrar vikur þar til Íslandsmótið hefst en hann var ánægður með stöðu mála og þá sérstaklega þann velvilja sem félagsmenn í GA hafa sýnt í verki.
„Þetta lítur allt saman vel út og ég er ekki í vafa um að hér mun fara fram frábært Íslandsmót. Við þurfum mikið af sjálfboðaliðum í aðdraganda mótsins og á meðan það fer fram. Um 50-60 manns, en það verður ekkert vandamál. Við erum ótrúlega heppin með framlag frá klúbbfélögum. Við höfum fengið gríðarlegt framlag frá þeim og fyrirtækjum vegna breytinga hér í klúbbhúsinu og ekki síst við vinnuna við æfingaaðstöðuna Klappir. GA er með magnaða einstaklinga sem eru alltaf tilbúnir að leggja til hjálparhönd. Þegar ég kom hingað fyrst þá kom þetta mér virkilega í opna skjöldu. Það komu menn til mín og sögðu mér að þeir hefðu lagað brýr, snyrt tré og gert alls konar hluti sem þurfti að gera. Þeir höfðu bara frumkvæðið og gengu í hlutina. Þessu hef ég ekki átt að venjast og þetta gerir GA að enn öflugra félagi.“
Byggjum upp ímynd Jaðarsvallar
Á undanförnum áratug hafa gríðarlega breytingar átt sér stað á Jaðarsvelli og segir Ágúst að á næstu árum verði allur kraftur settur í að nostra við völlinn og gera hann enn betri.
„Við höfum lagt mikla áherslu á að tala jákvætt um Jaðarsvöll og byggja upp ímynd þessa svæðis. Ég tók eftir því áður en ég kom hingað að þeir sem töluðu hvað verst um Jaðarsvöll voru yfirleitt klúbbfélagarnir sjálfir frá Akureyri og þetta er alveg séríslenskt fyrirbæri. Það er nú bara þannig að við getum ekki haft betur í baráttunni við móður náttúru, við verðum að vinna með henni eins vel og við getum. Hér eru erfiðir vetur á hverju einasta ári og við vinnum ekki þá baráttu. En það er hægt að gera ýmislegt til þess að völlurinn verði betri og betri með hverju árinu sem líður, það eru allir að reyna að gera sitt besta í þeim efnum. Í vetur fengum við mjög erfiða tíð sem gerði okkur erfitt fyrir. Völlurinn var því frekar seinn til í vor en klúbbfélagarnir tóku því mjög vel og voru ítrekað að ýta á eftir því að nokkrar flatir fengju meiri tíma í vor áður en umferð væri hleypt inn á þær. Við getum ekki borið okkur saman við vellina á SV-horni landsins í maí og byrjun júní en um hásumarið og seinni part sumars er Jaðarsvöllur á meðal bestu golfvalla landsins.“
Gríðarlegur fjöldi kylfinga kemur á Jaðarsvöll á hverju sumri og fer þeim fjölgandi með hverju árinu sem líður.
„Hér eru leiknir um 25.000 golfhringir á ári og þar af eru 10.000 gestir úr öðrum klúbbum. Það sem mér finnst gott að heyra er að gestirnir upplifa að þessi völlur er einstakur. [pull_quote_right]„Þetta er eins og í útlöndum,“ segja margir enda er gróðurinn hér einstakur og veðursældin er líka mikil – og nú er ég ekki að ýkja. Það eru mjög margir dagar hér sem eru um 20 gráður og frábært veður.“[/pull_quote_right]
Ágúst ítrekar að tekið verði vel á móti gestum á Íslandsmótinu í golfi og það sé mikil spenna og eftirvænting hjá Akureyringum. „Við höfum nánast lokið við gríðarlegan uppbyggingarfasa hér á svæðinu og nú tekur við kafli þar sem við getum farið að einbeita okkur enn betur að smáatriðunum sem þurfa að vera í lagi. Ég á von á því að það verði mikil þátttaka á Íslandsmótinu 2016 og það verða margir kylfingar héðan af Norðurlandi sem taka þátt. [pull_quote_right]Það er gríðarlega mikilvægt að fá Íslandsmótið hingað á Norðurland. Þetta styrkir golfíþróttina á þessu svæði enda er það helsti styrkleiki golfsins á Íslandi að það er leikið um allt Ísland. [/pull_quote_right]Ungir kylfingar fá tækifæri að sjá sínar helstu fyrirmyndir í golfinu og þetta verður bara stórkostlegt mót fyrir alla sem þessu koma. Og ég veit að veðrið verður frábært,“ sagði Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA.