Auglýsing

Tilkynning frá viðbragðshóp GSÍ vegna Covid-19.

Kæru félagar.

Í gær sendum við ykkur tilmæli vegna hertra aðgerða stjórnvalda, sem þá voru kynntar. Tilmælin sneru að almennum golfleik og fram kom að beðið væri frekari upplýsinga frá stjórnvöldum varðandi mótahald. 

Golfsambandið hefur verið í samskiptum við stjórnvöld í gegnum skrifstofu ÍSÍ í gær og í dag. 

Eins og staðan er núna þá höfum við fengið þær upplýsingar að unnt sé að stunda golf, sé nauðsynlegra sóttvarnaaðgerða gætt. Það þýðir að golfleikur getur farið fram en við mælumst sterklega með því að leikið verði samkvæmt þeim tilmælum sem send voru á golfklúbbana í gær og vísast til þeirra. Nánar tiltekið er um að ræða sömu tilmæli og tóku gildi þann 4. maí sl. 

Varðandi mótahald, þá bíðum við enn eftir frekari tilmælum stjórnvalda en í ljósi þess að hægt er að leika golf með framangreindum hætti þá ætti að vera óhætt að hefðbundið mótahald golfklúbba fari fram um helgina. Við mælumst þó sterklega með því að notast verði við rafræn skorkort, sé þess kostur, og að verðlaunaafhendingar fari ekki fram. Mikilvægt er að sóttvarna sé gætt í klúbbhúsum og að tveggja metra reglan verði virt.

Eins og áður segir, þá bíðum við frekari fyrirmæla og munum upplýsa ykkur um þau um leið og þau berast. 

Viðbragðshópur GSÍ vegna Covid-19.

Nánar á vef ÍSÍ – sjá hér fyrir neðan.

Breyting á takmörkun á samkomum og nálægðartakmörkun

Á hádegi í dag, 31. júlí, tók gildi ný auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og er gildistími hennar til 13. ágúst næstkomandi. Markmið breytinganna sem nú taka gildi er að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins, sem því miður er nú aftur í vexti hér á landi.

Breytingarnar fela meðal annars í sér að fjöldasamkomur, þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman, eru óheimilar á gildistíma auglýsingarinnar. Gilda reglurnar jafnt um opinber rými sem og einkarými og eru íþróttaviðburðir þar með taldir. Ákvæðið um fjöldatakmörkun (3. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar.

Skylt er að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga sem ekki deila heimili á samkomum, öllum vinnustöðum og í allri annarri starfsemi. Ákvæði um nálægðartakmörkun (4. grein) tekur þó ekki til barna sem eru fædd árið 2005 og síðar. 

Í auglýsingunni kemur einnig fram að í starfsemi þar sem notaður er sameiginlegur búnaður, s.s. í íþróttastarfi, starfsemi líkamsræktarstöðva, spilasala og spilakassa skal búnaður sótthreinsaður milli notenda. 

ÍSÍ óskaði eftir nánari útlistun frá sóttvarnarlækni varðandi íþróttastarfsemi fullorðinna og fékk rétt í þessu til baka tilmæli um eftirfarandi:

1.     Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi. 
2.     Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.
3.     Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

ÍSÍ hvetur íþróttahreyfinguna til að fara að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að viðhafa allar nauðsynlegar sóttvarnir.

Verum ábyrg!

Auglýsinguna og minnisblað sóttvarnarlæknis er í heild sinni að finna hér fyrir neðan:

Auglýsing um samkomubann vegna farsóttar – 30. júlí 2020.

Minnisblað sóttvarnarlæknis 29. júlí 2020.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ