/

Deildu:

Auglýsing


Ágætu kylfingar.

Í fyrrasumar fór golftímabilið hægt af stað, að minnsta kosti á suðvesturhorninu. Rok og rigning hreiðruðu um sig á vormánuðum og yfirgáfu ekki hreiðrið fyrr en um miðjan júlí. Afleiðingin var sú að kylfingar léku mun minna golf en þeir yfirleitt gera og golfvellirnir iðuðu ekki af sama lífi og undanfarin ár.

Í byrjun apríl kom í ljós að ástand golfvalla var gott og grasið iðjagrænt. Eftir að hafa krosslagt fingur í fjórar vikur gátu vallarstjórar opnað vellina sína og hleypt hjörð kylfinga út að leika. Ég man ekki til þess að golfvellirnir hafi opnað svona fljótt áður og það er frábært að hugsa til þess að við fáum vikurnar til baka sem við fórum á mis við síðasta sumar. Við áttum það svo sannarlega inni.

Það er óhætt að segja að golfíþróttin taki hægum breytingum. Íþróttin byggir á ævafornum gildum og breytingar eru ekki gerðar nema að vel ígrunduðu máli. Það verður því að teljast frekar óvanalegt að íþróttin skuli standa á þeim tímamótum sem hún gerir í dag. Í sögulegu samhengi má segja að bylting sé að eiga sér stað. Í byrjun árs tóku golfreglurnar miklum breytingum og það verður spennandi að sjá hvernig sumarið þróast. Í byrjun næsta árs munu nýjar forgjafarreglur taka gildi þegar núverandi forgjafarkerfi Evrópska golfsambandsins verður sameinað öðrum forgjafarkerfum heimsins í eitt alþjóðlegt forgjafarkerfi, World Handicap System. Þessar tvær breytingar eru umtalsverðar og munu hafa mikil og góð áhrif á íþróttina. Þessu til viðbótar er nú að hefjast vinna við breytingar á reglum um áhugamennskuréttindi en óhætt er að segja að kominn sé tími til að nútímavæða þær reglur.

Hér á landi látum við ekki nægja að taka við breytingum frá útlöndum, heldur standa einnig merkilegar breytingar fyrir dyrum af okkar eigin völdum. Má þar helst nefna fyrirhugaðar breytingar á tölvukerfi hreyfingarinnar. Á aukaþingi Golfsambands Íslands þann 11. maí sl. var samþykkt einróma af fulltrúum golfklúbbanna að semja við danska hugbúnaðarfyrirtækið Golfbox um rekstur á hugbúnaðarkerfi sambandsins til næstu fimm ára.

Allir íslenskir kylfingar þekkja núverandi kerfi sem við, í daglegu tali, köllum golf.is. Kerfið hefur verið hannað og rekið af golfsambandinu, í nánu samstarfi við IOS hugbúnað, síðastliðin 20 ár og hefur kerfið þjónað sambandinu, golfklúbbunum og kylfingum afar vel. Að loknu fjögurra ára rannsóknarferli, sem að kom fjöldi sérfræðinga, var það niðurstaða stjórnar golfsambandsins að hætta þróun okkar eigin kerfis og taka þess í stað upp alþjóðlega og leiðandi hugbúnaðarlausn sem notuð hefur verið af milljónum kylfinga og tugum golfsambanda undanfarin ár. Um allan heim eru þúsundir hugbúnaðaraðila í stöðugri þróun á nýju viðmóti og tæknimöguleikum, sem golfsambandið mun aldrei getað fylgt eftir í sínu sérsmíðaða kerfi. Golfsamband Íslands er ekki hugbúnaðarfyrirtæki og óhjákvæmilegt er að GSÍ lendi undir í þeirri þróun sem fram undan er, með núverandi kerfi. Af þeim sökum var samþykkt einróma að taka í notkun hið nýja kerfi frá og með næsta ári. Kynning og kennsla á nýja kerfinu mun hefjast þegar nær dregur.

Ég óska ykkur gleðilegs sumars með hraðri forgjafarlækkun. Haldið áfram að sveifla.

Haukur Örn Birgisson
forseti Golfsambands Íslands

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ