Á Íslandsmótinu í golfi í sumar varð óvænt dramatík í karlaflokki þegar Haraldi Franklín tókst að vinna upp fimm högga forystu Axels Bóassonar á tveimur síðustu holunum. Með því náði Haraldur að knýja fram umspil um Íslandsmeistaratitilinn, sem Axel svo vann. Eftir umspilið hef ég fengið ýmsar spurningar um fyrirkomulag umspils og bráðabana og þær reglur sem gilda um þetta.
Samkvæmt golfreglunum hafa mótsstjórnir nokkuð frjálsar hendur um hvernig jafntefli eru útkljáð, jafnt í holukeppni sem höggleik. Í höggleik er algengast að leikinn sé bráðabani eða umspil um efsta sætið og ef á annað borð er leikið um önnur sæti er bráðabani lang algengastur. Þótt umspil sé oftast þrjár holur er það ekki einhlítt, enda er það val mótsstjórnarinnar eins og fyrr segir. Á Opna breska meistaramótinu er t.d. leikið fjögurra holu umspil um fyrsta sætið og á Opna bandaríska meistaramótinu er umspilið heilar 18 holur. Til samanburðar er ekkert umspil á Masters-mótinu, þar er farið beint í bráðabana ef tveir eða fleiri keppendur eru jafnir eftir 72 holur.
Eftir umspilið hef ég fengið ýmsar spurningar um fyrirkomulag umspils og bráðabana og þær reglur sem gilda um þetta
Á GSÍ mótum er kveðið á um jafntefli í reglugerðum viðkomandi móta. Í flestum mótanna er leikinn bráðabani um fyrsta sætið en ekki leikið um önnur sæti.
Á Íslandsmótinu er hins vegar leikið þriggja holu umspil um fyrsta sætið og bráðabani í framhaldi af honum, ef keppendur eru enn jafnir. Mótsstjórn ákveður hvaða holur eru leiknar. Með tilliti til áhorfenda og sjónvarpsútsendingar var ákveðið fyrir Íslandsmótið í sumar að kæmi til umspils yrðu leiknar holur 10, 11 og 18 og 18. holan síðan endurtekin ef bráðabana þyrfti til eftir umspilið.
Þriggja holu umspil fer þannig fram að keppendurnir leika þrjár holur og samtals skor þeirra á holunum ákvarðar endanlega röð í mótinu. Ef einhverjir eru jafnir, og þörf krefur, er síðan haldið áfram í bráðabana þar til röðin liggur fyrir. Ímyndum okkur t.d. að þrír keppendur hefðu orðið jafnir á Íslandsmótinu og farið í umspil. Ef einn þeirra væri með lægsta skor, t.d. 11 högg eftir holurnar þrjár, yrði hann Íslandsmeistari. Hinir tveir þyrftu ekki að halda áfram í bráðabana þótt þeir væru t.d. báðir á 13 höggum, því á Íslandsmótinu er bara leikið um 1. sætið.
Af sömu ástæðu yrðu hinir tveir jafnir í 2. – 3. sæti jafnvel þótt þeir væru á ólíku skori eftir umspilið. Ef á hinn bóginn tveir væru jafnir eftir þrjár holur á 11 höggum en sá þriðji hefði leikið holurnar á 13 höggum myndi sá detta út en hinir tveir halda áfram í bráðabana til að knýja fram niðurstöðu um fyrsta sætið. Sá sem ynni bráðabanann endaði þá í 1. sæti en hinir tveir teldust jafnir í 2. – 3. sæti.
Þetta ætti að svara spurningunni um hvort Axel Bóasson hafi þurft að pútta síðasta púttið í umspilinu við Harald Franklín í Íslandsmótinu. Nei, hann þurfti þess ekki, Haraldur var hættur leik og Axel því sjálfkrafa orðinn sigurvegari.
Þar sem umspil og bráðabani eru nýjar umferðir í höggleik eiga keppendurnir að fylla út og skila skorkortum, á sama hátt og í öðrum umferðum. Þess er þó ekki þörf ef dómari er með í för því hann heldur þá utan um skorið.
Ef svo illa vill til að keppandi í umspili eða bráðabana brýtur einhverja reglu sem leiðir til frávísunar á sú frávísun eingöngu við um umspilið eða bráðabanann. Keppandi sem lenti t.d. í slíku í tveggja manna umspili um 1. sætið myndi þá lenda í 2. sæti í mótinu. Með árangri sínum fyrir umspilið var hann búinn að tryggja sér a.m.k. 2. sætið og frávísunin í umspilinu breytir því ekki.
Keppendur í umspili eða bráðabana mega hætt leik hvenær sem er og lenda þá í neðsta sæti af þeim sem eftir eru. Keppandi í þriggja holu umspili í Leirunni sem er búinn að slá fjóra bolta út í fjöruna í Bergvíkinni kann að sjá að hann eigi enga möguleika lengur. Þá væri mjög skrítið ef reglurnar krefðust þess að hann kláraði holuna. Enda má hann einfaldlega hætta. Ef keppendurnir í umspilinu voru bara tveir er hinn þar með sjálfkrafa búinn að vinna. Þetta ætti að svara spurningunni um hvort Axel Bóasson hafi þurft að pútta síðasta púttið í umspilinu við Harald Franklín í Íslandsmótinu. Nei, hann þurfti þess ekki, Haraldur var hættur leik og Axel því sjálfkrafa orðinn sigurvegari.
Hörður Geirsson
hordur.geirsson@gmail.com