– Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, gefur lesendum Golf á Íslandi góð ráð um hugarfarsþjálfun
Jóhann Ingi Gunnarsson, sálfræðingur, hefur á undanförnum áratugum verið í fremstu röð sérfræðinga sem aðstoða afreksíþróttafólk við að hámarka árangur sinn.
Hér er grein sem birtist á sínum tíma í tímaritinu Golf á Íslandi.
Hugarfarsþjálfun – hversu mikilvæg er slík þjálfun? Geta allir kylfingar þjálfað sig upp, óháð getustigi?
Hún skiptir mjög miklu máli. Í raun má segja að hugarfar sé eins og hver annar vöðvi (eða tækniatriði) sem hægt er að þjálfa, óháð getustigi eða forgjöf. Uppbyggilegt hugarfar getur gert gæfumuninn á meðan neikvætt hugarfar getur reynst jafnvel færum kylfingum mjög hamlandi.
Hvaða aðferðum getur hinn almenni kylfingur beitt til þess að róa taugarnar fyrir golfmót?
Hugsanir okkar stjórna því að miklu leyti hvernig okkur líður, t.d. hvort við upplifum okkur stressuð eða sjálfsörugg. Það sem við kjósum að beina athyglinni að í huganum hefur tilhneigingu til að vaxa og dafna. Ef athygli okkar (t.d. í aðdraganda móts) er stöðugt á fyrri höggum sem misfórust eða hvað geti farið úrskeiðis er líklegt að við mætum að lokum uppfull af stressi og áhyggjum á fyrsta teig. Og spilamennskan sennilega eftir því. Ef við á hinn bóginn beinum meðvitað athygli okkar að jákvæðari þáttum, samanber styrkleikum okkar og góðum undirbúningi, er líklegt að við finnum til spennu fyrir mótinu í stað streitu. Við verðum rólegri og við förum jafnvel að hlakka til. Hér er innra sjálfstal okkar lykilatriði. Á sama hátt og hægt er að tala sig niður í huganum má að sjálfsögðu tala sig upp í tilhlökkun og vellíðan í staðinn. Það er bara spurning um æfingu. Prófaðu t.d. að líta á pressuna við næsta mót sem forréttindi sem ber að fagna því þá er hugurinn einungis að gefa til kynna að þetta sé eitthvað sem skiptir þig máli. Að streitan sé bara orkustykki sem þú innbyrðir til að ná settu marki. „Ég er best(ur) undir álagi,“ er algengt sjálfstal afreksmanna og „eftir því sem pressan er meiri þeim mun betur spila ég“. Rétt spennustig og jákvætt sjálfstal hjálpar okkur þannig að hafa aðgang að getu okkar og ná okkar besta fram.
Getur þú tekið dæmi um það hvernig hægt er að róa sig niður fyrir fyrsta teighöggið í móti sem er oftast það erfiðasta?
Hér má nefna dæmi um ýmsa tækni sem kylfingar (og annað íþróttafólk) í fremstu röð hefur beitt. Mörgum finnst gott að nota sjálfstalið sem eins konar möntru til að róa sig niður við slíkar aðstæður. Skammstöfunin YES er ein slík. Hún stendur fyrir: „Ég er yfirveguð/yfirvegaður, einbeitt(ur) og sjálfsörugg(ur)“. Endurtaki maður þetta nógu oft, vitandi í hverju orðin felast, fer smám saman að vera nóg að segja eða heyra orðið „yes,“ þá finnur maður hvernig líkami manns og hugur fyllist af þessu þrennu.
Sumir hafa frekar kosið að nota ákveðið orð eða hlut sem hefur ákveðna merkingu fyrir viðkomandi. Orðið/hluturinn stendur þá fyrir eitthvað sem kemur kylfingnum í sitt uppáhalds hugarástand sem hann hefur skilgreint vel með sjálfri/sjálfum sér. Golfarar æfa sveifluna sína óteljandi sinnum og er síðan kennt að treysta sveiflunni sinni þegar á hólminn er komið. Þannig sé líklegast að höggið verði áreynslulaust og komi vel út. Því hafa sumir notað orðið „treysta“ með sjálfri/sjálfum sér til að róa sig niður og komast á réttan kjöl. Enn aðrir hafa notað hlutlaust áreiti (t.d. rauðan borða á golfpokanum) sem þeir gjóa augunum á eftir þörfum og tengja við eftirsóknarverða líðan.
Þá hafa sumir gefið sér tíma og velt fyrir sér hvers kyns efasemdum og áhyggjum sem þeir kunna að hafa í aðdraganda móts en skilið þær svo allar eftir í bílnum fyrir fyrsta högg. Þær munu ekki hjálpa neitt úti á velli. Um leið og bílhurðinni er lokað er búið að ákveða að beina athyglinni fyrst og fremst að vel völdum, uppbyggilegum hugsunum.
Að lokum – neikvæðar hugsanir úti á vellinum, hvernig losar kylfingurinn sig við slíkar hugsanir?
Hér skiptir andlegur undirbúningur miklu máli, þ.e. að vera búin(n) að ákveða fyrirfram hvernig maður hyggst mæta neikvæðum hugsunum eða krefjandi aðstæðum þegar þær dúkka upp. Við náum m.ö.o. árangri í huganum áður en við mætum á völlinn! Ætla ég að tala niður til mín eða vera hvetjandi? Hvaða jákvæðu setningar ætla ég að nota? Ætla ég að staldra lengi við slæm högg eða huga frekar að því næsta? Að vera búin(n) að ákveða og æfa rétt viðbrögð í huganum fyrirfram stóreykur líkur á því að framkvæmdin úti á velli verði eins.
Til dæmis er hægt að æfa sig í að „núllstilla“ sig eftir hverja holu (eða högg). Það þýðir einfaldlega að næsta högg er alltaf það mikilvægasta. Hafi það síðasta ekki verið nógu gott mun ég leiðrétta það með næsta höggi. Gott gengi á síðustu holu hleypur ekki með mig í gönur. Slæmt gengi dregur mig að sama skapi ekki niður á þeirri næstu.
Hér fer einnig vel á því að nota W-I-N, þ.e. að spyrja sig: „What’s important now?“ í hvert skipti sem í harðbakkann slær. Afreksmenn eru oft flinkir við að beina athygli sinni og orku á það sem skiptir mestu máli, m.ö.o. að fókusa á það sem þeir hafa stjórn á hverju sinni en láta annað eiga sig. Sé maður tilbúin(n) með svar við W-I-N verður um leið mun minni tími fyrir neikvæðar hugsanir.
Þá er einnig gott að minna sig á að þeir (eða þær) sem lengst hafa náð hræðast ekki mótlæti, þeir nýta sér það. Að æfa sig í að yfirstíga mótlæti er ein besta leiðin sem til er fyrir íþróttafólk til að styrkja skapgerð sína og hækka getustig.
Eins og áður segir snýst hugarfar um þjálfun eins og allt annað í golfi. Best er að taka eitt skref í einu og gefa sér tíma.
Decide to do it, plan to do it, practice doing it and focus on doing it.