Seinni undankeppni Landsmótsins í golfhermum lauk síðastliðna helgi og nú er komið í ljós hvaða keppendur fara í úrslitakeppnina og berjast um Landsmeistaratitilinn. Úrslitin fara fram í Íþróttamiðstöð GKG föstudaginn 25. apríl, og verður mótið sýnt í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og Facebook síðu GSÍ frá kl. 19:30.
Metþátttaka var í mótinu í ár en alls hófu 230 karlar og 38 konur keppni. Er þetta í samræmi við þær auknu vinsældir sem golfhermar hafa skapað sér á undanförnum árum, enda frábær leið til að iðka og æfa golf yfir vetrartímann.
Í seinni undankeppninni léku þeir kylfingar sem voru með besta árangurinn í fyrri undankeppninni, alls 22 í kvennaflokki og 53 í karlaflokki. Leikið var á hinum sögufræga Le Golf National velli í París, sem einnig verður spilaður í úrslitum mótsins. Karlar leika völlinn af svörtum teigum, 6650 metrar og konur af bláum teigum, 5246 metrar.
Hart var barist um sæti í úrslitunum, en efstu 8 kylfingarnir úr hvorum flokknum komust áfram.
Besta skorið í kvennaflokki átti Ragnhildur Kristinsdóttir en hún lék á 66 höggum, eða 6 undir pari. Á eftir Ragnhildi var Guðrún Brá Björgvinsdóttir sem lék völlinn á 68 höggum. Önnur úrslit og þeir kylfingar sem leika til úrslita eru:
Sæti | Nafn | Klúbbur | Skor |
1. | Ragga Kristinsdóttir | GR | 66 |
2. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | GK | 68 |
3. | Karen Lind Stefáns | GKG | 70 |
4. | Katrín Embla Hlynsdóttir | GOS | 71 |
5. | Eva Kristins | GM | 71 |
6. | Embla Halls | GKG | 73 |
7. | Una Karen | GKG | 75 |
8. | Sigurást Júlía | GK | 75 |
Í karlaflokki var það Akureyringurinn Veigar Heiðarsson sem lék best, en hann skilaði inn hring upp á 64 högg. Fimm kylfingar voru jafnir á 4 undir pari, en einungis 2 þeirra komust áfram í úrslitin. Ef leikmenn eru á sama skori og sá sem er með lakastan árangur þeirra sem halda áfram gilda seinni 9, síðan seinustu 6, loks seinustu 3 og svo 1. Ef enn er jafnt skal varpa hlutkesti.
Sæti | Nafn | Klúbbur | Skor |
1. | Veigar Heiðarsson | GA | 64 |
2. | Ólafur Marel Árnason | NK | 65 |
3. | Valsarinn | GA | 66 |
4. | Arnór Tjörvi | GR | 66 |
5. | Skúli Ágústsson | GK | 66 |
6. | Aron Skúli Ingason | GM | 66 |
7. | Andri Mar | GM | 67 |
8. | Aron Snær Júlíusson | GKG | 67 |
Skor úr undankeppnum gilda ekki í úrslitum, þannig allir hefja leik á jöfnum grundvelli. Þar verða leiknar 36 holur, og sigurvegararnir krýndir Landsmeistarar í golfhermum. Veitt verða verðlaun fyrir efstu þrjú sætin í hvorum flokki auk þess sem sigurvegarar fá farandbikar
- sæti: 130.000 kr.
- sæti: 50.000 kr.
- sæti: 30.000 kr.