Útbreiðsluverkefnið „Golfdagurinn“ er til umfjöllunar í nýjasta tímariti R&A Developing golf. Tímaritið beinir kastljósinu að áhugaverðum þróunarverkefnum í golfíþróttinni víðsvegar um veröldina. Útgáfan er á vegum R&A í Skotlandi og er þetta sjöunda tölublaðið í útgáfunni.
Í umfjöllun tímaritsins er rætt við Ólaf Björn Loftsson afreksstjóra GSÍ og Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóra GSÍ
Á undanförnum misserum hefur GSÍ í samstarfi við PGA á Íslandi og KPMG staðið að kynningu á golfíþróttinni undir handleiðslu PGA kennara víðsvegar um landið. „Golfdagurinn“ er nafnið á verkefninu og hafa þeir nú þegar farið fram á Höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Norðurlandi. Markmiðið er að bjóða upp á slíkan viðburð í öllum landshlutum.
Verkefnið hefur fengið góðar viðtökur og verið vel sótt. Á Golfdeginum er boðið upp á dagskrá fyrir alla fjölskylduna og vel tekið á móti öllum gestum. PGA kennarar hafa sett upp skemmtilegar þrautabrautir fyrir þátttakendur – ásamt því að fara yfir helstu grunnatriði golfsveiflunnar og í lok dags er boðið í grillveislu.
Samhliða Golfdeginum hafa áhugasamir einstaklingar í golfklúbbum á þeim svæðum þar sem að Golfdagurinn hefur farið fram fengið leiðbeiningar frá PGA kennurunum hvað varðar uppsetningu og framkvæmd einfaldra leikjanámskeiða. Markmiðið með þeirri fræðslu er að skilja eftir þekkingu til þess að efla innra starf golfklúbba á svæðinu þar sem að PGA kennarar eru ekki til staðar.