/

Deildu:

Auglýsing

Nýverið var úthlutað úr Forskoti afrekssjóði kylfinga og fá fimm atvinnukylfingar styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Kylfingarnir eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR), Valdís Þóra Jónsdóttir (GL), Birgir Leifur Hafþórsson (GKG), Þórður Rafn Gissurarson (GR) og Axel Bóasson úr (GK). Þetta er í fimmta sinn sem íslenskir kylfingar fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði sem var stofnaður árið 2012.  Nú fær Ólafía Þórunn Kristinsdóttir  hæsta styrkinn enda í fyrsta sinn sem sjóðurinn er að styrkja kylfing sem er með keppnisrétt í efstu deild atvinnumennsku í golfi.

Vörður tryggingar bætist við öflugan hóp fyrirtækja sem standa að afrekssjóði kylfinga

Í ár leggur eitt öflugt fyrirtæki til viðbótar lóð á vogarskálarnar. Vörður tryggingar kemur inn í hóp þeirra fyrirtækja sem hafa stutt vel við bakið á íslenskum afrekskylfingum undanfarin ár.  Vörður hefur verið einn aðalsamstarfsaðili Golfsambands Íslands síðastliðin ár, við útgáfu golfreglnanna og Golfreglubókarinnar. Þá hefur félagið staðið að golfregluleik á netinu til að hvetja kylfinga að þjálfa og auka þekkingu sína á reglum golfsins. Það er því mikið gleðiefni að Vörður sé nú líka hluti af Forskoti afrekssjóði.

Stofnendur Forskots afrekssjóðs eru Eimskip, Valitor, Golfsamband Íslands, Íslandsbanki og Icelandair Group. Sjóðurinn hefur frá upphafi haft það að markmiði að styðja við þá kylfinga, atvinnumenn sem og áhugamenn, sem stefna á að komast í fremstu röð í heiminum í golfíþróttinni.


Screenshot (11)

Um sjóðinn

  • Þetta er í fimmta sinn sem íslenskir kylfingar fá úthlutað úr Forskoti afrekssjóði sem var stofnaður um mitt ár 2012 og var í fyrsta sinn úthlutað úr sjóðnum þann 14. júní sama ár.

  • Markmiðið með stofnun Forskots afrekssjóðs árið 2012 var að búa til reynslu og þekkingarbrunn sem skili sér til kylfinga framtíðarinnar og ungir kylfingar geti litið til í sínum framtíðaráætlunum. Sjóðurinn hefur frá upphafi beint sjónum sínum að fimm kylfingum á hverjum tíma og leitast við að gera þeim auðveldara fyrir að æfa og keppa við bestu skilyrði í samræmi við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.

  • Frá því að Forskot afrekssjóður var settur á laggirnar hefur slagkrafturinn hjá íslenskum atvinnukylfingum verið enn meiri en áður og samtakamáttur þeirra aðila sem koma að sjóðnum fleytt okkar bestu kylfingum áfram inn á nýjar brautir.

  • Ríkar kröfur eru gerðar til þessara íþróttamanna um ráðstöfun þessara styrkja. Ber þeim að leggja fram æfinga- og keppnisáætlanir auk fjárhagsáætlunar fyrir verkefni sín auk þess sem gerðir eru sérstakir samningar við hvern kylfing um að þeir virði reglur Íþrótta- og Ólympíuhreyfingarinnar.

  • Þeir kylfingar sem fá úthlutað úr Forskot afrekssjóði eru sterkar fyrirmyndir. Það að eiga afreksmenn í íþróttum er stór og mikilvægur þáttur í því að fá börn og unglinga til að sinna íþróttum. Því er litið á sjóðinn sem mikilvægt skref til að efla íþróttir barna og unglinga og hvetja þá til dáða.

  • Einn fulltrúi frá hverjum stofnaðila er í stjórn sjóðsins og auk þess hefur stjórn sér til ráðgjafar fagteymi sem gerir tillögur um úthlutanir úr sjóðnum.

  • Í fagteyminu sitja eftirtaldir aðilar: Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari, Hlynur Geir Hjartarson formaður PGA á Íslandi, Sigurpáll Geir Sveinsson  PGA kennari, Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari.


Um kylfingana

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR:

Ólafía Þórunn, sem er 23 ára gömul, tryggði sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð kvenna í desember s.l. á lokaúrtökumótinu sem fram fór í Marokkó. Ólafía Þórunn lék á LET Access atvinnumótaröðinni á síðasta tímabili og var það hennar fyrsta tímabil sem atvinnukylfingur. Hún náði góðum árangri og endaði hún í 14. sæti á stigalistanum á þeirri mótaröð. Ólafía hefur leik á LET Evrópumótaröðinni í febrúar á mótum sem fram fara í Nýja-Sjálandi og Ástralíu. Hún er önnur í röðinni hjá íslenskum konum sem hafa tryggt sér keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu en Ólöf María Jónsdóttir náði þeim árangri haustið 2004. Ólafía Þórunn hefur tvívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi, 2011 og 2014.

 

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL:
Valdís Þóra lék annað árið í röð á LET Access mótaröðinni sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Valdís Þóra, sem er 26 ára gömul, endaði í 23. sæti á stigalistanum á þeirri mótaröð og bætti árangur sinn töluvert á milli ára. Hún var í baráttunni um að komast í hóp þeirra sem fengu keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á lokaúrtökumótinu í Marokkó. Valdís Þóra hefur tvívegis staðið uppi sem sigurvegari á Íslandsmótinu í golfi, 2009 og 2012.

Birgir Leifur Hafþórsson, GKG:

Birgir Leifur, sem verður fertugur í maí á þessu ári,  komst inn á lokaúrtökumótið fyrir sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Þar var hann í hópi 156 kylfinga sem kepptu um 25 laus sæti á Evrópumótaröðinni. Hann endaði í 106. sæti á +3 samtals eftir fjóra keppnishringi. Birgir Leifur náði góðum árangri á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu á síðasta ári og tryggði hann sér góða stöðu varðandi þátttöku á keppnistímabilinu sem hefst í apríl á þessu ári.

Saga Birgis á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina er áhugaverð. Hann hefur frá árinu 1997 leikið 17 sinnum á úrtökumótinu. Þetta var í 12. sinn sem hann tók þátt á 3. stiginu. Hann hefur 14. sinnum leikið á 2. stiginu og aðeins þrívegis hefur honum mistekist að komast ekki í gegnum 2. stig úrtökumótsins. Birgir Leifur náði ekki alla leið að þessu sinni en hann er eini íslenski karl kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sig inn á Evrópumótaröðina en það gerði hann árið 2006.

Þórður Rafn Gissurarson, GR:

Þórður Rafn fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í golfi á síðasta ári. Hann verður 29 ára á þessu ári og lék hann á 18 atvinnumótum á þýsku Pro Golf mótaröðinni á síðasta ári. Mótaröðin er í þriðja styrkleikaflokki í Evrópu. GR-ingurinn endaði í 22. sæti á stigalista Pro Golf mótaraðarinnar sem er hann náði oft að vera í hópi 20 efstu á þeim mótum. Þórður lék á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina en náði ekki að komast í gegnum 1. stigið.

Axel Bóasson, GK:

Axel Bóasson endaði í 23. sæti á lokaúrtökumótinu fyrir Nordic League atvinnumótaröðina í golfi sem fram fór í byrjun október. Axel, sem er 25 ára gamall, reyndi við úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina en hann náði ekki að komast í gegnum 1. stigið. Hann varð Íslandsmeistari í holukeppni á árinu 2015 og stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar. Axel er með fullan keppnisrétt á Nordic League mótaröðinni sem er í flokki mótaraða í Evrópu sem flokkaðar eru í þriðja styrkleikaflokki á eftir Áskorendamótaröðinni og Evrópumótaröðinni. Þetta er fyrsta árið sem Axel er atvinnumaður en hann afsalaði sér áhugamannaréttindunum s.l. haust.

Eftirtaldir kylfingar hafa fengið úthlutað úr Forskoti afrekssjóði:

2012
Birgir Leifur Hafþórsson GKG
Tinna Jóhannsdóttir GK
Stefán Már Stefánsson GR
Ólafur Björn Loftsson NK
Þórður Rafn Gissurarson GR

2013
Birgir Leifur Hafþórsson GKG
Ólafur Björn Loftsson NK
Þórður Rafn Gissurarson GR
Axel Bóasson GK
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR

2014
Birgir Leifur Hafþórsson, GKG
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL
Axel Bóasson, GK
Ólafur Björn Loftsson, NK

2015
Birgir Leifur Hafþórsson, GKG
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL
Ólafur Björn Loftsson, GKG
Þórður Rafn Gissurarson, GR

2016
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL
Birgir Leifur Hafþórsson, GKG
Þórður Rafn Gissurarson, GR
Axel Bóasson, GK

 

Þórður Rafn Gissurarson.
Þórður Rafn Gissurarson
Axel Bóasson, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Valdís Þóra Jónsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson.
Axel Bóasson Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Valdís Þóra Jónsdóttir Birgir Leifur Hafþórsson

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ