Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni endaði í 35. sæti á Generali de Dinard meistaramótinu sem fram fór í Frakklandi. Mótið er fyrsta mót keppnistímabilsins á LET Access atvinnumótaröðinni. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn að loknum 36 holum.
Valdís Þóra lék hringina þrjá á 74-71-72 og var samtals á +10 en par vallarins er 69 högg. Ólafía Þórunn lék á +9 fyrstu tvo hringina 72-75.
„Þetta var allt í lagi miðað við fyrsta hringinn og þau mistök sem ég gerði á þessu móti. Miklu meira sem var gott á þessu móti en það sem var slæmt – það er jákvætt. Nú er bara að vinna í því þar til næsta mót byrjar,” skrifar Valdís Þóra á fésbókarsíðu sína en næsta mót er á stórfurðulegum velli í Lugo á Spáni að hennar sögn en það byrjar 29. apríl.
Mótið er hluti af LETAS atvinnumótaröðinni í Evrópu – sem er næst sterkasta atvinnugolfmótaröð kvenna á eftir sjálfri LET Evrópumótaröðinni.
Valdís og Ólafía hafa báðar fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi tvívegis, Valdís 2009 og 2012, en Ólafía 2011 og 2014.
Þetta er fyrsta mót keppnistímabilsins en íslensku kylfingarnir ætla að leggja áherslu á LET Access mótaröðina á þessu tímabili. Þetta er í fyrsta sinn sem tvær íslenskar konur eru með keppnisrétt á þessari mótaröð en Valdís Þóra er að hefja sitt annað tímabil á LET Access mótaröðinni.
Stigahæstu keppendurnir á LET Access mótaröðinni í lok keppnistímabilsins vinna sér inn keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.
Lokaúrslit mótsins: