Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni og Berglind Björnsdóttir úr GR hefja leik á fimmtudaginn á lokamóti LET Access atvinnumótaraðarinnar.
Valdís Þóra er í 38. sæti á stigalista mótaraðarinnar en hún er á sínu þriðja tímabili á þessari atvinnumótaröð sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Berglind Björnsdóttir fékk boð um að taka þátt en hún er Íslandsmeistari í holukeppni 2016 á Eimskipsmótaröðinni og var í landsliði Íslands á EM og HM á þessu ári.
Valdís Þóra hefur leikið á 10 mótum á þessu tímabili á LET Access mótaröðinni. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fimm mótum og besti árangur hennar er 3ja sæti.
Það eru allar líkur á því að Valdís Þóra þurfi að leika á fyrsta stigi úrtökumótsins fyrir LET Evrópumótaröðina í Marokkó í desember á þessu ári. Tuttugu stigahæstu kylfingarnir á LET stigalistanum fara beint inn á lokaúrtökumótið. Valdís gæti með góðum árangri á lokamótinu á Spáni bætt stöðu sína á stigalistanum og komist í hóp 20 efstu.