Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni er í 15.-19. sæti að loknum fyrsta keppnisdeginum á LETAS atvinnumóti sem fram fer á portúgölsku eyjunni Azores. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er í 26.–32. sæti en mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu.
Valdís, sem hefur tvívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi, lék á einu höggi yfir pari eða 73 höggum. Ólafía Þórunn, sem hefur einnig fagnað Íslandsmeistaratitlinum tvívegis, lék á +3 eða 75 höggum. Emma Goddard frá Englandi er efst á -3 en átta kylfingar léku undir pari á fyrsta hringnum.
Leikið á Terceira vellinum. Þetta er næst síðasta mótið á keppnistímabilinu.
Það er að miklu að keppa á næstu tveimur mótum því 20 efstu á styrkleikalista mótaraðarinnar komast beint inn á lokaúrtökumótið í Marokkó. Fimm efstu á styrkleikalistanum fá sjálfkrafa keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni á næsta tímabili.
Ólafía Þórunn er í 17. sæti á styrkleikalistanum en hún hefur leikið á 13 mótum á keppnistímabilinu. Valdís Þóra er í 24. sæti á þessum lista en hún hefur leikið á 11 mótum á keppnistímabilinu.
Besti árangur Ólafíu Þórunnar er 5. sæti á þessu tímabili, en Valdís Þóra hefur náð að enda í 7. sæti.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR:
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL: